Sigurður Björnsson fæddist í Kaupmannahöfn 22. nóvember 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. desember 2018.

Foreldrar hans voru hjónin Sólveig Sigurbjörnsdóttir húsfreyja, f. 1911, d. 2005, og Björn Sigurðsson læknir, f. 1911, d. 1963. Systkini hans: Gróa, f. 1937, d. 2017, Elín Þórdís, f. 1945, d. 2004, og Sigurbjörn, f. 1953.

Eiginkona hans er Ásdís Magnúsdóttir læknaritari, f. 1949. Synir þeirra: Björn Darri kerfisfræðingur, f. 1975, og Magnús Harri hjúkrunarfræðingur, f. 1983. Dóttir hans: Ásdís Mist, f. 2008, móðir hennar er Margrét Pétursdóttir, f. 1983.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá MR 1957 og cand. med. frá Háskóla Íslands 1963. Hann stundaði sérfræðinám í Bandaríkjunum á árunum 1965-1971. Frá 1971-2008 starfaði hann sem sérfræðingur í lyflækningum og meltingarsjúkdómum á Borgarspítalanum. Jafnframt starfandi sérfræðingur á stofu í Reykjavík á árunum 1972-2014.

Útför Sigurðar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 9. janúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er ekki sársaukalaust að kveðja góðan vin og frænda.

Mér er minnisstætt þegar ég dvaldi sumarlangt hjá Sigga og fjölskyldu á Hvammstanga 1943. Hvammstangi var í þá daga lítið sjávarþorp og þar var margt forvitnilegt fyrir unga drengi að skoða og upplifa. Við höfum til að mynda oft rifjað upp atburðinn þegar stóra mannýga nautið elti okkur. Á síðustu stundu tókst okkar að klöngrast yfir gaddavírsgirðingu og forða okkur. Einnig minnist ég þess þegar komið var með mjólk á stórum brúsa á kvöldin til heimilisins. Einn morguninn stálumst við Siggi og Góaló systir hans til að veiða rjómann ofan af brúsanum, þvílíkt lostæti.

Í lok seinni heimsstyrjaldar flutti fjölskylda Sigga til Keflavíkur. Strákarnir í götunni léku oft fótbolta saman. Þá naut Siggi sín vel því hann var mjög kappsamur og góður í boltanum. Siggi var líka mjög músíkalskur. Um hverja helgi kom hann með rútunni til Reykjavíkur til að sækja píanótíma hjá Urbancic sem bjó á Hringbrautinni. Eftir tíma hittumst við oft heima hjá okkur Tryggva bróður á Reynimelnum.

Siggi var góður námsmaður og fljótlega var hann ákveðinn í að læra til læknis, annað kom ekki til greina. Það kom sér vel fyrir hann hvað hann var einbeittur og setti sér ávallt skýr markmið. Þegar hann var við nám í Háskólanum lést Björn faðir hans frá konu og fjórum börnum. Þá flutti fjölskyldan á Seltjarnarnes, skammt frá heimili okkar hjóna. Oft fórum við í göngutúra á kvöldin og gjarnan Tryggvi bróðir með. Oftast enduðum við gönguna með tesopa og meðlæti hjá okkur Lullu konunni minni.

Það var ánægjulegt að fylgjast með hvað honum gekk vel í náminu. Oft ræddum við um það sem hann hafði verið að lesa og um nýjungar í læknisfræðinni. Eitt sinn tók hann mig með sér á sjúkrahúsið og fræddi mig um starfið þar. Sú ferð er mér ávallt eftirminnileg.

Að loknu námi hérlendis hélt hann til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og öll skólaárin hans vorum við í bréfasambandi.

Þegar Siggi kom heim frá námi hóf hann störf hjá Borgarspítalanum. Það var gott að geta leitað til hans því hann var bæði ráðagóður og hjálpsamur.

Siggi var mjög góður vinur og féll aldrei skuggi á vinskap okkar. Hann var bæði trygglyndur og orðvar en gat stundum verið hlédrægur.

Siggi átti mörg áhugamál fyrir utan starfið. Ferðalög, útivist og sund stundaði hann alla ævi og í mörg ár ferðaðist hann með Ferðafélagi Íslands vítt og breitt um landið. Margar skemmtilegar ferðir fórum við frændsystkinin saman, oft leigðum við okkur bústað, stundum fórum við í dagsferðir og þá var jafnan gengið mikið. Þá kom fyrir að við fórum á gönguskíði.

Siggi naut sín vel meðal vina, var hrókur alls fagnaðar og mjög hláturmildur. Fjölskyldur okkar hafa átt sumarbústaði á sama landi í Kjósinni í áratugi. Þau hjónin höfðu yndi af að sækja tónleika og nú seinni árin hafa þau ferðast mikið á fjarlægar slóðir.

Ég kveð nú góðan vin og frænda með miklum söknuði.

Við hjónin vottum Ásdísi, Birni Darra og Magnúsi Harra okkar dýpstu samúð.

Garðar Ólafsson.

Látinn er Sigurður Björnsson, frændi minn, nafni og vinur, eftir erfið veikindi. Hann var sonur Sólveigar Sigurbjörnsdóttur og Björns Sigurðssonar læknis. Þeir Björn og Sigurjón faðir minn voru synir þeirra Snjólaugar Sigurjónsdóttur og Sigurðar Björnssonar brunamálastjóra í Reykjavík og áttu þeir fjórar alsystur og eina hálfsystur. Eftir Sigurði afa vorum við skírðir, Sigurður S. Magnússon, Sigurður Björnsson og ég. Innan stórfjölskyldu okkar voru sterk fjölskyldu- og vinabönd. Glaðværð, væntumþykja, samstaða og traust vinátta entist okkur allt lífið. Björn faðir Sigurðar féll frá langt um aldur fram og skildi eftir stórt skarð í fjölskyldunni. Björn var lengst af læknir í Keflavík og þangað voru farnar ófáar ferðir á glæsilegt heimili þeirra Lóló.

Við nafnarnir áttum samleið er ég var 7 ára og hann 14 ára. Fórum við þá í sveit á stórbýli hjá óskyldum aðilum. Líklegast var ég sendur í sveitina til að draga úr álagi heima fyrir en frændi sjálfsagt til að stæla sig við líkamlega vinnu. Siggi átti að passa litla frænda, sem reyndist auðvitað hægara sagt en gert. Smábarnið varð gagntekið af heimþrá. Mikil vinnusemi var á bænum og öllum stórum og smáum gert að vinna. Mér var lögð til skraffla, sem var Esso-olíudós með steinvölum í, til að reka hross úr sléttunni, látinn reka kýr, drepa fýl með priki og burðast með kaffi á engi í glerflöskum í ullarsokkum. Frændi sýndi dug og djörfung með orf og ljá um víðan völl og lét sig hafa allt þetta puð. Ég minnist þess ennþá, er ég kom eitt sinn til Sigga út á teig og reyndi að fá hann til að strjúka með mér af bænum. Hafði heyrt af slíku úrræði. Það varð visst áfall þegar það gekk ekki eftir, en hann beitti mig fortölum til að duga lengur í sveitinni. Sigurður Björnsson var drengur góður og víðs fjarri honum að hlaupa af sinni vakt með pjakkinum frænda sínum. Það gerði hann aldrei í sínu lífi. Sigurður fetaði í fótspor föður síns og nam læknisfræði. Varð hann þaulmenntaður á sínu sviði. Velvild hans og ræktarsemi kom vel fram í lífsstarfinu en sannarlega er það ekki öllum gefið að stunda líknarstörf.

Í einkalífinu var Sigurður mikill gæfumaður. Þau Ásdís voru mikið útivistarfólk og nutu þess að ferðast hérlendis og erlendis. Veikur fór hann nú síðast til Þýskalands með Ásdísi í fyrra og allri fjölskyldu sinni í afmælisferð til Skotlands í nóvember síðastliðnum. Þar áttu þau góðar stundir. Tíminn líður hratt og allir eru uppteknir af sínu lífshlutverki, sem eðlilegt er. Áttatíu ár eru mörg ár en ekki endilega hár aldur, er ekkert þykir sjálfsagðara en að verða hundrað ára. Að fá að lifa hamingjusamlega og við góða heilsu er þó það dýrmætasta í lífi hvers manns. Þess naut Sigurður til síðustu ára. Við leiðarlok er þess saknað að hafa ekki hitt miklu oftar góða vini sína og frændfólk, sérstaklega þegar maður áttar sig á því hversu langt er síðan maður var bara 7 ára. Farðu vel, góði frændi og vinur, og megi Guð blessa þig, Ásdísir þínar tvær og drengina.

Sigurður Sigurjónsson.