Miðað við þá vísitölu hækkuðu raunlaun á Íslandi á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2018 að meðaltali um 3,8% en ekki 1,5% líkt og Trade Union Congress spáði.

Reglulega birtast skrif þess efnis að hér á Íslandi ríki mikill ójöfnuður, launahækkanir hafi ekki verið nægjanlega miklar og alls ekki í samræmi við verðmætasköpun undanfarinna ára. Sagt er að ávinningur núverandi hagvaxtarskeiðs hafi fyrst og fremst runnið í vasa fjármagnseigenda en launþegar hafi setið eftir. Raunveruleikinn er raunar allt annar. Hvort sem flett er upp í gagnagrunni Hagstofu Íslands, OECD eða Hagstofu Evrópusambandsins segja tölurnar sömu sögu. Á Íslandi ríkir einn mesti tekjujöfnuður innan OECD, meðallaun eru þau næsthæstu innan OECD og lágmarkslaun þau þriðju hæstu. Jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir háu verðlagi á Íslandi eru laun hér á landi há í alþjóðlegum samanburði. Launahlutfall á Íslandi er jafnframt það hæsta innan OECD – með öðrum orðum þá rennur hvergi stærri hluti virðisauka efnahagslífsins til launþega en á Íslandi. Þetta er ekki slæmur félagsskapur til að vera leiðandi í en innan OECD eru alls 36 lönd, sem flest teljast til þróuðustu ríkja heims.

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, skrifaði nýverið pistil um raunlaunahækkanir og hagvöxt á Íslandi og bar þær hagtölur saman við önnur OECD-ríki. Í pistlinum eru aðilar vinnumarkaðarins og sem hann nefnir „fulltrúar auðvaldsins“ sakaðir um að fara með rangt mál og því haldið fram að þróun raunlaunahækkana sé ekki jafn góð og fullyrt hefur verið. Bendir hann á tölur frá velsk-enska verkalýðssambandinu Trade Union Congress sem sýni að raunlaunahækkanir á Íslandi hafi verið 1,5% á árinu 2018 og hækkunin því sú tíunda hæsta meðal OECD-ríkja. Þá fullyrðir hann einnig að raunlaunahækkun síðasta árs á Íslandi sé jafnframt minni en sem nemur hagvexti á mann á árinu og segir: „... launahækkanir voru minna en 1/3 af aukningu landsframleiðslu á mann, álíka og í Bandaríkjunum, Eistlandi, Kanada og Noregi. Engin hættumerki þar.“

Þegar rýnt er í gögnin sem Gunnar Smári vitnar í frá ofangreindu verkalýðssambandi sést að tölur þeirra um þróun raunlauna eru byggðar á spám en ekki rauntölum. Nú í upphafi ársins 2019 liggja hins vegar fyrir tölur um þróunina á árinu 2018. Ef flett er upp í gagnagrunni Hagstofu Íslands má sjá „vísitölu kaupmáttar launa“ (m.ö.o. raunlaunavísitölu fyrir Ísland). Miðað við þá vísitölu hækkuðu raunlaun á Íslandi á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2018 að meðaltali um 3,8% en ekki 1,5% líkt og Trade Union Congress spáði. Með öðrum orðum þá hefur hækkun raunlauna verið með mesta móti miðað við önnur OECD-ríki. Hagstofa Íslands hefur einnig birt hagvaxtartölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins og mældist hagvöxtur á mann 2,2%. Raunlaunahækkanir á árinu 2018 voru því 1,75 sinnum meiri en sem nam hagvexti á mann en ekki þriðjungi líkt og Gunnar Smári hélt fram.

Mikilvægt er að byggja ályktanir um þróun launa á Íslandi á þeim óháðu hagtölum sem liggja fyrir á hverjum tíma, en ekki úreltum spám. Annað er ekki uppbyggilegt. Staðan í íslensku efnahagslífi er mjög viðkvæm um þessar mundir og sú óvissa sem ríkir um niðurstöðu kjarasamninga er þegar farin að hafa neikvæð áhrif á efnahagslífið. Krónan hefur veikst á undanförnum misserum, stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa verið hækkaðir og verðbólguvæntingar á uppleið. Þá eru væntingar heimila og fyrirtækja til stöðu hagkerfisins næstu sex mánuði í sögulegu lágmarki. Það er því sérstaklega mikilvægt að aðilar að kjaraviðræðunum og aðrir sem tjá sig um þróun lífsgæða Íslendinga reyni eftir fremsta megni að byggja á staðreyndum.