[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Japan Ívar Benediktsson iben@mbl.is Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla, segir sig og japanska liðið ekki fara með miklar væntingar inn í heimsmeistaramótið í handknattleik en japanska landsliðið er m.a.

Japan

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla, segir sig og japanska liðið ekki fara með miklar væntingar inn í heimsmeistaramótið í handknattleik en japanska landsliðið er m.a. með íslenska landsliðinu í riðli.

„Við gerum okkur grein fyrir að við erum eitt slakasta liðið í riðlinum vegna þess að við erum talsvert á eftir Spánverjum, Króötum, Íslendingum og Makedóníumönnum auk þess sem við töpuðum með ellefu marka mun fyrir Barein í sumar sem leið. Fyrst og fremst þá teljum við okkur vera að braggast og stefnum á að taka áframhaldandi framförum á HM,“ sagði Dagur í samtali við Morgunblaðið á dögunum.

„Ég tel okkur vera á réttri leið eftir að hafa lagt mikla vinnu í að styrkja liðið síðan ég tók við þjálfun þess. Mínar væntingar eru meðal annars þær að liðinu takist að ná jafnvægi í sinn leik en því miður hafa verið talsverðar sveiflur í leik okkar. Stundum hefur liðið náð fínum leikjum en fallið niður á milli. Vonandi erum við að taka skref í rétta átt til að draga úr sveiflunum,“ sagði Dagur sem tók við þjálfun japanska landsliðsins fyrir tæpum tveimur árum eftir að hafa slegið í gegn sem landsliðsþjálfari Þýskalands um þriggja ára skeið og m.a. stýrt þýska liðinu til sigurs á Evrópumeistaramótinu í Póllandi 2016.

Kærkomið útspil hjá IHF

Japanska landsliðið fékk óvænt þátttökurétt á HM eftir að Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, ákvað að úthluta Japan sæti sem stjórn IHF hefur haft til umráða í undanfara þriggja síðustu heimsmeistaramóta. Japanska liðið hafnaði í sjötta sæti í Asíukeppninni í vor. Dagur segir að óvænt útspil IHF veiti japanska landsliðinu kærkomið tækifæri til þess að búa sig enn betur en ella fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum sem fram fara í Japan eftir hálft annað ár.

„Við erum fegnir að fá að vera með á HM. Þar af leiðandi verður undirbúningur okkar fyrir Ólympíuleikana markvissari. Við eigum greiðari leið til þess að fá góða leiki í Evrópu á þessum tíma árs áður en farið er á HM þar sem strákarnir fá hörkuleiki. Ætli leikirnir í aðdraganda HM og á mótinu sjálfu séu ekki í kringum fimmtán gegn alvöru liðum. Sú staðreynd mun aðeins gera strákunum gott og styrkja þá fyrir Ólympíuleikana,“ sagði Dagur ennfremur.

„Við viljum vera komnir með þannig lið á Ólympíuleikunum að við getum staðið bærilega í andstæðingum okkar. Eins er markmið mitt til lengri tíma að aðstoða Japani við að byggja upp lið sem getur þegar fjær dregur staðið í lappirnar í alþjóðlegri keppni.“

Spilum um 30 landsleiki á ári

Handknattleikur er ekki mjög útbreidd eða þekkt íþrótt í Japan. Níu lið leika í efstu deild í handbolta karla og leggja þarf í talsverð ferðalög til þess að mæta útlendum andstæðingum. Þá vantar talsvert upp á að æfingar félagsliða og yngri handknattleiksmanna séu á pari við það sem gengur og gerist í Evrópu. Einnig skortir talsvert á reynslu.

„Einn vandi okkar við uppbyggingu íþróttarinnar í Japan er sá að við erum langt frá Mekka handboltans í Evrópu og deildarkeppnin er smá í sniðum. Liðin breytast lítið ár frá ári og menn eru því meira og minna að eiga við sömu andstæðingana. Þegar ég tók við þá lék landsliðið ekki nema um 10 landsleiki á ári. Það segir sig sjálft að þetta dugir ekki til að halda í við bestu þjóðirnar á handknattleikssviðinu. Þess vegna meðal annars var spýtt hressilega í lófana þegar ég tók við þjálfun landsliðsins. Á síðustu tveimur árum höfum við leikið um 30 landsleiki hvort ár sem hjálpar okkar svo að kjarninn í landsliðinu verði með að minnsta kosti 100 landsleiki á bakinu þegar flautað verður til leiks á Ólympíuleikunum. Þá verða menn reynslumeiri og tilbúnir í aðeins meiri læti en þeir voru fyrir fáeinum árum.

Þetta er svolítið ólíkt því þegar ég valdi lítt reynda og unga leikmenn í þýska landsliðið á sínum tíma. Þótt þeir hefðu ef til vill aðeins leikið 10 til 15 landsleiki þá voru þeir undir það búnir að standa í þeim átökum sem fylgja landsliðinu enda höfðu þeir reynslu af því að leika í þýsku 1. deildinni sem er sterkasta deildarkeppni Evrópu.“

Þokkalegt landslið að fæðast

Dagur segist hafa gefið á milli 30 og 40 leikmönnum tækifæri til að spreyta sig með japanska landsliðinu síðan hann tók við þjálfun þess. „Kjarnahópurinn er núna í kringum 20, þar af eru um 12 leikmenn sem ég treysti til að standa í fæturna gegn evrópskum landsliðum. Þannig að það er að fæðast hjá okkur þokkalegt landslið,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans og fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins, en Dagur er á meðal marka- og leikjahæstu leikmanna íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótum.

Japanska liðið lék þrjá leiki í Sviss um síðustu helgi, gerði 28:28 jafntefli gegn Sviss, tapaði 34:31 fyrir Túnis og 27:25 fyrir Portúgal.

Íslenska landsliðið mætir japanska landsliðinu í næstsíðustu umferð B-riðils miðvikudaginn 16. janúar. Japan mætir hinsvegar Makedóníu í fyrsta leik riðilsins á föstudaginn klukkan 14 að íslenskum tíma.