Framkvæmdir Starfsmenn Reinar vinna að því að steypa saman forsteyptar einingar í sökkla skrifstofuhlutans.
Framkvæmdir Starfsmenn Reinar vinna að því að steypa saman forsteyptar einingar í sökkla skrifstofuhlutans. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hafin er bygging nýrrar slökkvistöðvar fyrir Slökkvilið Norðurþings á uppfyllingu við höfnina á Húsavík. Starfsemi slökkviliðsins hefur verið efld til að það geti þjónað kísilverksmiðju BakkaSilicon hf.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hafin er bygging nýrrar slökkvistöðvar fyrir Slökkvilið Norðurþings á uppfyllingu við höfnina á Húsavík. Starfsemi slökkviliðsins hefur verið efld til að það geti þjónað kísilverksmiðju BakkaSilicon hf. norðan Húsavíkur og liður í því er að staðsetja nýja slökkvistöð við enda Húsavíkurhöfðaganga sem liggja frá höfninni inn á iðnaðarsvæðið.

„Það hefur aldrei verið byggt utan um þessa starfsemi. Með tilkomu stóru verksmiðjunnar í bakgarðinum hjá okkur varð að efla starfið. Það hefur verið gert. Aðstöðusköpun er liður í þeirri uppbyggingu til framtíðar,“ segir Grímur Kárason slökkviliðsstjóri.

Fjölgað hefur verið í slökkviliðnu þannig að þar eru nú þrír fastir starfsmenn auk starfsmanna í hlutastörfum sem koma í einstök verkefni. Slökkviliðið mannar annan af tveimur sjúkrabílum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík. Samið hefur verið við Heilbrigðisstofnunina og starfsmenn hennar sem manna hinn bílinn um að taka bakvaktir hjá slökkviliðinu. Þeir eru nú í grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn. Grímur segir að stefnan sé að vera með fimm menn á dagvakt og fimm á bakvakt.

Húsið er rúmlega 1.000 fermetrar að stærð. Liðlega 300 fermetrar eru fyrir skrifstofur og aðra aðstöðu fyrir starfsfólk og bílasalurinn er rúmir 700 fermetrar. Starfsmenn hafnarskrifstofunnar fá inni í slökkvistöðinni fyrir sig og mengunarvarnabúnað. Möguleikar eru á því að byggja ofan á hluta hússins, ef þörf verður á í framtíðinni.

Slökkviliðið er einnig með deildir á Kópaskeri og Raufarhöfn.

Samningur við BakkaSilicon hf. um viðbragðsþjónustu fyrir iðnaðarsvæðið losar fyrirtækið undan því að reka eigið slökkvilið. Með því að fjölga starfsfólki og staðsetja nýja slökkvistöð við jarðgöngin er hægt að stytta viðbragðstímann mjög. BakkiSilicon greiðir slökkviliðinu fyrir þessa þjónustu.

Bygging slökkvistöðvar hefur verið nokkur ár í undirbúningi. Þegar verkið var boðið út á síðasta ári barst ekkert tilboð. Grímur segir að það skýrist af þeim miklu önnum sem hafi verið hjá byggingarfyrirtækjum á Húsavík og nágrenni síðustu ár.

Engin tilboð bárust

Bæjarstjórn Norðurþings ákvað að ganga til samninga við Trésmiðjuna Rein um framkvæmdir á dögunum og eru framkvæmdir hafnar. Verksamningurinn víkur ekki í veigamiklum atriðum frá skilmálum sem fram komu í útboðsgögnum og fjárhæðin lítið eitt yfir kostnaðaráætlun, að því er fram kemur í fundargerð framkvæmdaráðs Norðurþings. Fyrirtækið byggir húsið fyrir 247 milljónir króna. Að auki fellur til undirbúningskostnaður sem Norðurþing hefur lagt í.

Grímur segir að verklok séu áætluð í lok ágúst.