Digranes Matthildur Einarsdóttir og Erla Rán Eiríksdóttir verjast Dominiku Strumilo í leiknum í gær.
Digranes Matthildur Einarsdóttir og Erla Rán Eiríksdóttir verjast Dominiku Strumilo í leiknum í gær. — Morgunblaðið/Hari
Íslenska kvennalandsliðið í blaki lauk keppni í undanriðli Evrópumóts kvenna 2019 í gær þegar það mætti Belgum í Digranesi í Kópavogi.

Íslenska kvennalandsliðið í blaki lauk keppni í undanriðli Evrópumóts kvenna 2019 í gær þegar það mætti Belgum í Digranesi í Kópavogi.

Belgar, sem eru með eitt af bestu liðum Evrópu og höfðu þegar tryggt sér sigur í riðlinum með fullu húsi stiga, unnu auðveldan 3:0 sigur, en hrinurnar enduðu 25:4, 25:7 og 25:6. Hrinurnar tóku 16-17 mínútur hver fyrir sig og leikurinn í heild aðeins 50 mínútur. Erla Rán Eiríksdóttir, sem var fyrirliði í fyrsta skipti, og Elísabet Einarsdóttir skoruðu 3 stig hvor fyrir íslenska liðið í leiknum.

Ísland lauk því keppni án stiga en Belgar fengu 18 stig af 18 mögulegum. Slóvenía vann Ísrael 3:0 á útivelli, fékk 12 stig og fylgir Belgum í lokakeppni EM sem fer fram í Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og Tyrklandi í haust. Ísrael endaði í þriðja sætinu með 6 stig, eftir tvo sigra á íslenska liðinu sem fékk keppnisrétt í þessari undankeppni í fyrsta skipti.

*Karlalið Íslands lék líka lokaleik sinn í undankeppninni fyrir EM karla í Digranesi í gærkvöld þegar það tók á móti Slóvakíu. Staðan var sú sama og hjá konunum, Slóvakar komnir á EM en Ísland án stiga á botni riðilsins. Þegar blaðið fór í prentun var staðan 2:0 fyrir Slóvaka sem unnu fyrstu hrinuna 25:18 og aðra hrinu líka 25:18 en íslenska liðið veitti þeim harða keppni. vs@mbl.is