Yfirlæknir Sigurður Böðvarsson á nýju skrifstofunni með Búrfellið í bakgrunni.
Yfirlæknir Sigurður Böðvarsson á nýju skrifstofunni með Búrfellið í bakgrunni. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Krabbameinssjúklingar á Suðurlandi geta nú hitt krabbameinslækni, sótt lyfjagjafir og verið í læknandi meðferð í sinni heimasveit.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Krabbameinssjúklingar á Suðurlandi geta nú hitt krabbameinslækni, sótt lyfjagjafir og verið í læknandi meðferð í sinni heimasveit. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) hefur í rúmt ár rekið göngudeild fyrir krabbameinssjúklinga en lyfjameðferðum hefur þó verið fjarstýrt frá Landspítalanum. Þetta breyttist um lok síðasta árs þegar HSU réð til sín Sigurð Böðvarsson, sérfræðing í krabbameinslækningum. Hann er nú yfirlæknir göngudeildar á sjúkrahússviði spítalans. Hugmyndin er að sögn Sigurðar að efla þjónustu við krabbameinssjúklinga á svæðinu sem eru í eftirfylgni eftir geislameðferðir og í lyfjagjöfum. Enn þarf þó að sækja skurðaðgerðir og geislameðferðir í Reykjavík. Sigurður segist þó vongóður um að hægt sé að stækka göngudeildina og bæta þjónustuna á Suðurlandi frekar á næstu árum.

Frá Wisconsin til Selfoss

Sigurður starfaði um árabil við krabbameinslækningar í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum. Hann kláraði sérnámið sitt í Madison í Wisconsin, en starfaði síðar á Green Bay Oncology í Green Bay Wisconsin. Áður var Sigurður í um níu ára skeið sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítala. Hann hefur einnig áralanga reynslu af meðferð krabbameinssjúklinga, rannsóknum, kennslu og stjórnun. Þá var hann um tíma formaður Læknafélags Reykjavíkur. Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, segir í tilkynningu á vefsíðu spítalans það vera mikinn feng að fá Sigurð til starfa hjá HSU.

„Hugmyndin er að efla þessa þjónustu við krabbameinssjúklinga og að þeir geti komið hingað í lyfjagjafir og eftirlit. Spara þeim þannig sporin við að þurfa að keyra yfir heiðina. En oft er þetta þannig að fólk er að koma í meðferðir þar sem það fær lyf í æð, kannski einu sinni í viku, aðra hverja viku eða þriðju hverja viku,“ segir Sigurður. „Þetta er svipuð þjónusta og er búin að vera árum saman, á Akureyri, en þar er krabbameinsgöngudeild. Fyrir norðan er verið að reyna að koma í veg fyrir að fólk þurfi að fljúga í bæinn og hér að fólk þurfi ekki alltaf að vera að keyra yfir heiðina. Færa þjónustuna þannig nær fólkinu,“ segir Sigurður.

Aukin þörf fyrir þjónustuna

Sigurður segir þörfina á þjónustu fyrir krabbameinssjúklinga á Suðurlandi vera mikla þar sem um 30 þúsund manns búa á svæðinu, en einn af hverjum þremur einstaklingum fær krabbamein á lífsleiðinni.

„Sem betur fer eru lyfin að verða betri. Oft er um að ræða fólk í læknandi meðferð eða fólk sem við vitum að við læknum ekki og erum við þá að reyna að halda krabbameininu niðri. Það getur gengið vel, jafnvel árum saman. En þú þarft að koma í þessar meðferðir og fá lyfin, oft í æð. Stundum eru til töflumeðferðir en þá þarftu að koma inn í blóðprufur einu sinni í mánuði, en mikið af þessum lyfjum er gefið í æð svo þú þarft að koma. Og þá þarftu að koma vikulega og eða aðra hverja viku og fá lyfin þín,“ segir Sigurður. Lyfin eru ennþá blönduð í apótekinu á Landspítalanum og send austur.

Frá árinu 2014 hefur verið göngudeild á HSU en það var aðallega fyrir sjúklinga í nýrnaskilun. Síðar byrjaði fólk að koma í lyfjameðferð sem var fjarstýrt frá Landspítala.

Sigurbjörg Jónsdóttir, sem hefur verið hjúkrunarfræðingur á HSU um árabil, segir nýrnavélarnar hafa ýtt á eftir þessum breytingum.

„Við byrjuðum með nýrnavélarnar og alls konar lyfjagjafir. Blóðskilunin var upphafið og það var pressa frá sjúklingum sem voru búsettir hér á Suðurlandi. Svo bara vatt þetta auðvitað upp á sig, allskonar lyfjagjafir, og svo byrjaði formlegt samstarf við Landspítalann fyrir um ári,“ segir Sigurbjörg.

„Það hefur ekki verið neinn krabbameinslæknir hérna fyrr en núna,“ segir Sigurður. „Fólk fór því og hitti sinn krabbameinslækni á Landspítala og þar var sett upp meðferðarplan, en núna ættu þeir sem vilja að geta hitt mig hér. Ég hef sagt við fólk að það séu allir velkomnir sem vilji. Sjálfsagt eru einhverjir sem hafa verið í löngu sambandi við sinn lækni á Landspítalanum, kannski árum saman, og vilja halda því áfram. Það er líka allt í lagi,“ segir hann.

Sigurður hóf störf 1. desember sl. og er þjónustan í núverandi mynd því nýhafin. Hann segir fróðlegt að sjá hvernig heimamenn taki í hana.

Sævar Sigursteinsson er einn af þeim sjúklingum sem nú geta sótt lyfjameðferð á HSU. Hann segir þetta mikla búbót. „Ég var klukkutíma hvora leiðina, í bæinn og heim, og hálftíma að leita af bílastæði. Það sparast tveir og hálfur tími í akstur. Það munar um það,“ segir Sævar.

Sigurbjörg segir að sjúklingar séu almennt að taka mjög vel í þessar breytingar, enda hafa margir verið að keyra til Reykjavíkur árum saman. „Það getur verið hundleiðinlegt á veturna að fara yfir fjallið,“ segir Sævar. „Þetta er rosalegur tímasparnaður. Fyrst og fremst þægindi fyrir sjúklinginn,“ segir Sigurbjörg. Aksturinn austur getur einnig verið erfiður eftir margra klukkutíma lyfjameðferð og segist Sigurbjörg muna eftir einum sjúklingi sem þurfti alltaf að leggja sig hjá Rauðavatni áður en haldið var af stað heim.

Ekki ólíklegt að læknum fjölgi

Á HSU er nú m.a. starfandi hjartalæknir, meltingarfæralæknir, kvensjúkdómalæknir, háls-, nef- og eyrnalæknir og lungnalæknir. Sigurður segir hugmyndina að reyna byggja upp þjónustuna þannig að það þurfi ekki alltaf allir að fara í bæinn. Spurður hvernig hann sjái göngudeildina eftir ár og hvort læknum muni fjölga á deildinni segir hann það ekki ólíklegt.

„Ég vona bara að allir sem vilji fái góða þjónustu hér, góða læknisþjónustu og góða hjúkrunarfræðinga. Við eigum að hafa öll þau lyf sem skráð eru í landinu. Þörfin fyrir þessa þjónustu mun líklegast aukast því það eru alltaf fleiri og fleiri sem greinast með krabbamein og þeir sem greinast lifa lengur og fólk er oft í meðferð árum saman. Þá er ekki ólíklegt að þjónustan vaxi,“ segir Sigurður.

Lyfjameðferð á göngudeildinni er nú í boði á þriðjudögum og fimmtudögum. Sjúklingar í nýrnaskilun koma á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. „En ef þessir dagar fyllast þá verðum við bara að bæta við degi, kannski verður það þannig að við verðum með meðferðir alla fimm daga vikunnar það verður bara að koma í ljós,“ segir hann.

Eins og staðan er núna er göngudeildin afar lítil í eldri hluta spítalans, en til stendur að bæta aðstöðuna á komandi árum.

„Það stendur til að endurnýja allt saman og breyta og endurbyggja. Þetta er í raun bara eitt herbergi sem við erum með. Mér skilst að það sé vilji í heilbrigðisráðuneytinu til að færa þessa þjónustu nær heimabyggðinni og að það sé stefnan núna. Þetta er dæmigerð þjónusta þar sem þú ert í meðferð árum saman og þá er náttúrlega þægilegt að fá hana í sinni heimabyggð í staðinn fyrir að vera alltaf að fara yfir fjallið,“ segir Sigurður að lokum.