Ingólfur Þorsteinsson fæddist 10. januar 1901 í Eyvindartungu í Laugardal, Árn. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Jón Jónsson bóndi þar, f. 1852, d. 1919, og Arnheiður Magnúsdóttir húsfreyja, f. 1868, d. 1957.

Ingólfur Þorsteinsson fæddist 10. januar 1901 í Eyvindartungu í Laugardal, Árn. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Jón Jónsson bóndi þar, f. 1852, d. 1919, og Arnheiður Magnúsdóttir húsfreyja, f. 1868, d. 1957.

Ingólfur Þorsteinsson naut farkennslu í tvo mánuði á hverjum vetri í fjögur ár undir ferminguna. Hann vann við almenn sveitastörf og útróðra á vertíðum og síðan sjómennsku aðallega á togurum og einnig bifreiðaakstur í Reykjavík, þar til hann hóf þar starf sem lögregluþjónn 1. janúar 1930 og fór þá á lögreglunámskeið. Í lögreglunni starfaði hann til sjötugs, árið 1971, eða samtals í rúm fjörutíu ár. Fyrst í almenna lögregluliðinu og síðan við rannsóknir mála.

Hann sótti námskeið rannsóknarlögreglumanna á Englandi 1937 og kynnti sér einnig störf rannsóknarlögreglumanna í Frakklandi og Þýskalandi. Hann var skipaður varðstjóri í rannsóknarlögreglunni 1940, yfirvarðstjóri 1947, aðstoðaryfirlögregluþjónn 1963 og yfirlögregluþjónn rannsóknarlögreglunnar 1969.

Ingólfur var meðal stofnenda Lögreglufélags Reykjavíkur og Lögreglukórs Reykjavíkur og í stjórnum þeirra, formaður kórsins 1961 til 1969 og var kjörinn þar heiðursfélagi 1971. Hann var í Árnesingafélaginu frá stofnun og formaður þess 1963 til 1967. Var hann sæmdur gullmerki félagsins 1971. Ingólfur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1974.

Eiginkona Ingólfs var Helga Ingveldur Guðmundsdóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 21.4. 1904, d. 30.5. 1992. Börn þeirra: Þorsteinn, f. 1927, d. 1935, Guðmundur, f. 1929, d. 1987, íþróttakennari og forstjóri í Keflavík, Örn Brynþór, f. 1937, íþróttakennari og kaupmaður í Reykjavík, og Þorsteinn, f. 1944, d. 2018, sendiherra og ráðuneytisstjóri.

Ingólfur lést 24. febrúar 1989.