Bókin Kannski eru lesendur ekki enn búnir að gleyma að fljótlega eftir bankahrun var eins og samfélagið næði aftur jarðtengingu.

Bókin

Kannski eru lesendur ekki enn búnir að gleyma að fljótlega eftir bankahrun var eins og samfélagið næði aftur jarðtengingu. Vissulega höfðu margir farið illa út úr hruninu, misst vinnuna og jafnvel heimili sín, en um leið var eins og að í þögninni eftir hvellinn gæfist ráðrúm til að líta inn á við og sjá hvað það var sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Skyndilega fylltust leikhúsin af gestum, fólk fór að leggja sig fram við að sinna ástvinum sínum betur og spranga um holt og hæðir til að bæði njóta náttúrunnar og styrkja kroppinn. Sumir tóku meira að segja upp á því að hekla og prjóna svo að gósentíð var hjá hannyrðaverslununum.

En nú virðist hagkerfið aftur farið á flug og vinnuharkan að aukast. Gæti jafnvel verið meiri hætta á því nú en áður að fólk láti allt annað en vinnuna mæta afgangi – það þarf jú að safna upp góðum forða ef það skyldi koma annað hrun, og skulda þá örugglega sem minnst.

En allt er best í hófi og hefur sálfræðingurinn Josh Cohen skrifað ágæta bók sem minnir á mikilvægi þess að láta ekki vinnuna gleypa allt. Bókin heitir Not Working: Why We Have to Stop , og þar tíundar höfundurinn ágæti þess að hægja örlítið ferðina, endrum og sinnum. Hann minnir líka á að það sé ekki bara vinnan sem haldi okkur á hlaupum frá 9 til 5 (og jafnvel til 7 eða 11), heldur veitir umhverfið okkur engan frið: tölvupósturinn fylgir okkur alltaf og freistandi að nota augnabliksfrið – jafnvel bara þegar teflt er við páfann – til að kíkja á Facebook eða Twitter til að missa örugglega ekki af neinu.

Gallinn við þetta stöðuga annríki, að mati Cohens, er ekki síst að það veitir lítið svigrúm fyrir sköpun. Að vera sífellt að vinna þýðir að enginn tími er til að fá góðar hugmyndir, leita nýrra lausna, og þannig skapa meiri verðmæti en ella. ai@mbl.is