Ágúst Halldór Elíasson fæddist 29. janúar 1931 á Seyðisfirði. Hann lést á Landspítalanum 10. nóvember 2018.

Foreldrar hans voru Elías Halldórsson, forstjóri Fiskveiðisjóðs Íslands, f. 4. maí 1901, d. 31. júlí 1991, og Eva Pálmadóttir húsmóðir, f. 8. maí 1904, d. 19. nóvember 1993. Systur hans voru Erla, f. 8. apríl 1925, d. 31. maí 2010, og Halldóra, f. 6. júní 1927, d. 30. september 2005, maki Sveinn H. Ragnarsson, og er sonur þeirra Sveinn Andri Sveinsson, f. 16. ágúst 1964.

Hinn 4. október 1958 kvæntist Ágúst Elsu Vestmann Stefánsdóttur, f. 30. mars 1940. Þau skildu. Börn Ágústar og Elsu eru: 1) Anna Steinunn, f. 26. mars 1959, d. 23. ágúst 2012, maki Kjartan Bjargmundsson. Börn þeirra eru Elsa Vestmann, f. 4. febrúar 1991, Bjargmundur Ingi, f. 14. apríl 1992, og Ingibjörg, f. 16. júní 1994. 2) Einar Ingi, f. 25. maí 1960. Fyrrverandi sambýliskona er Lísa Ann Hartranft, dóttir þeirra er Sóley, f. 27. ágúst 1986, barnsfaðir Dominic White, sonur þeirra er Mikael White, f. 6. október 2010. Eiginkona Einars er Ásta Margrét Guðlaugsdóttir. Börn þeirra eru Guðlaugur Þór, f. 22. desember 1992, Ingibjörg Eva, f. 9. desember 1996, og Einar Ágúst, f. 22. júlí 1998. 3) Elías Halldór, f. 9. maí 1963. Fyrrverandi sambýliskonur hans eru: Vala S. Valdimarsdóttir, dóttir þeirra er Erla, f. 6. júní 1984, sambýlismaður Finnur G. Olguson, sonur þeirra er Snjólfur, f. 16. janúar 2018; Ingibjörg G. Sverrisdóttir, sonur þeirra er Ágúst Halldór, f. 25. maí 1994. Fyrrverandi eiginkona Elíasar er Eyrún Eiríksdóttir, dóttir þeirra er Brynhildur Vestmann, f. 14. janúar 1999. Eiginkona Elíasar er Kristín Vilhjálmsdóttir, sonur þeirra er Vilhjálmur Stefán, f. 23. ágúst 2011. 4) Eva, f. 26. júlí 1967.

Ágúst útskrifaðist frá Iðnskólanum 1951, lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1953 og prófi í rafmagnstæknifræði frá Tækniskólanum í Ósló 1956. Sama ár hóf hann störf sem tæknifræðingur hjá RARIK. 1964-1965 lá leiðin aftur til Óslóar þar sem Ágúst stundaði nám í rekstrarfræðum. 1965 réð hann sig til Vinnuveitendasambands Íslands, sat þar lengi í samninganefndum og tók þátt í innleiðingu ábataskiptakerfa í fiskvinnslu á Íslandi. Ágúst starfaði hjá VSÍ til 1969 og aftur frá 1971-1986 en 1970-1971 var hann forstöðumaður Samfrosts í Vestmannaeyjum. Frá 1986 var hann framkvæmdastjóri Samtaka fiskvinnslustöðva. Ágúst sat í sambandsstjórn VSÍ, stjórn Fiskifélags Íslands, fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins, gegndi formennsku í Hagræðingarfélagi Íslands og Landsmennt og sinnti fræðslu um vinnustaðaöryggi í dagblöðum og sjónvarpi. Hann var djassáhugamaður og trompetleikari, hélt úti einu dixielandsveit landsins um skeið á níunda áratugnum, kom að stofnun Jazzhátíðar og sat í stjórn Jazzklúbbs Reykjavíkur.

Útför Ágústar hefur farið fram í kyrrþey að hans ósk.

Kók í glasi, kapall á tölvuskjá og daufur ilmur af vindlareyk í lofti. Það var alltaf gott að koma í Mávahlíðina til afa Ágústar. Hann var traustur, hlýr og góður heim að sækja. Flestar minningar mínar um hann eru úr Mávahlíðinni; þær elstu næstum jafngamlar mér sjálfri en þær nýlegustu svo nýjar að mér finnst skrýtið og erfitt til þess að hugsa að íbúðin standi nú mannlaus og að nærvera afa míns þar verði hér eftir aðeins raunveruleg í huga okkar sem þekktum hann.

Afa var ýmislegt til lista lagt, til dæmis að spila á trompet og taka góðar ljósmyndir. Þegar ég skoða gömul myndaalbúm dettur mér í hug að hann hafi kannski alltaf kunnað því betur að vera ljósmyndarinn en myndefnið. Að minnsta kosti var hann ekki mikið gefinn fyrir sviðsljós eða það að vera miðpunktur athyglinnar, en honum lét vel að veita öðrum athygli.

Nú finn ég til sorgar í bland við létti og þakklæti. Létti yfir að þessi síðasti spölur hafi ekki dregist frekar á langinn en raunin varð, því ég veit að það hefði afi síst af öllu viljað. Það er skrýtin tilhugsun að ellefu mánaða sonur minn muni ekki kynnast afa Ágústi og aðeins þekkja hann af brotum sem raðast handahófskennt saman í skuggsjá frásagna og ljósmynda, en ég er þakklát fyrir fallegar minningar um hann í fangi langafa síns. Þakklát fyrir allar góðar minningar um góðan afa og allt það sem áfram mun minna mig á hann. Hvíldu í friði, elsku afi.

Þín sonardóttir,

Erla.