[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir er fædd á Norðfirði hinn 10. janúar 1979. „Þegar ég er spurð að því hvaðan ég sé lendi ég alltaf í töluverðum vandræðum. Jú, ég er fædd og uppalin á Norðfirði fyrstu árin.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir er fædd á Norðfirði hinn 10. janúar 1979. „Þegar ég er spurð að því hvaðan ég sé lendi ég alltaf í töluverðum vandræðum. Jú, ég er fædd og uppalin á Norðfirði fyrstu árin. Þegar ég var sex ára fluttum við á Reyðarfjörð þar sem ég bjó þar til ég fór að heiman. Ég er samt rosa mikill Eskfirðingur í mér, en ég var mikið þar hjá ömmu og afa og nældi mér svo auðvitað í eskfirskan kærasta. Svo eru föðuramma mín og afi frá Borgarfirði eystri og Loðmundarfirði þannig að ég tengi mig heilmikið þangað. Ég er sem sagt mikil sveitastelpa og stolt af því að vera Austfirðingur.“

Ásta er gift Páli Bragasyni frá Eskifirði, en þau hafa verið saman síðan hún var 14 ára og hann 16 ára. Þau trúlofuðu sig árið 2000 og giftu sig árið 2009. Þau eiga börnin Braga Hrafn sem fæddur er árið 2003 og Tönju Ýri sem fædd er árið 2006.

Ásta og Páll fluttu saman til Reykjavíkur 1995 þar sem þau fóru bæði í menntaskóla en eftir það kláraði Ásta viðskiptafræði ásamt verkefnastjórnun frá Háskóla Reykjavíkur. Árið 2004 flutti litla þriggja manna fjölskyldan aftur austur og settist að á Reyðarfirði þar sem þau stofnuðu verktakafyrirtækið Bragasyni ásamt bróður Páls. Ásta vann við fyrirtækjaráðgjöf í Íslandsbanka næstu sex árin. Þá tók við skemmtilegur tími hjá Þróunarfélagi Austurlands, krefjandi ár hjá Austurbrú og ýmiss konar félagsstörf sem fylgja oft á tíðum búsetu á minni stöðum.

Meðal þeirra samfélagsstarfa sem Ásta sinnti frá árunum 2006-2014 var m.a. sæti í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, formennska í atvinnu- og menningarnefnd sveitarfélagsins, sæti í menningarráði Austurlands, stjórnarformaður í Menningarmiðstöð Austurlands og stjórnarseta í Safnahúsinu í Neskaupstað. Þá var Ásta fyrsti varaþingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 2013-2016.

Haldið á ný mið

Fyrir sléttum þremur árum settist fjölskyldan upp í bíl á Reyðarfirði og ók litla 700 kílómetra til nýrra heimkynna í Reykjavík. „Það var skítaveður og allir með hnút í maganum, mismunandi stóran sennilega en það er bara einu sinni þannig að allar breytingar taka á, sama hvort maður velur að fara út í þær sjálfur eða ekki. Í þessu tilfelli var það ákvörðun okkar að breyta til, prófa eitthvað nýtt, skora á okkur á nýjum sviðum og rjúfa þægindarammann.“ Ásta tók við nýju starfi framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans í upphafi árs 2016 og Páll hóf störf hjá Ásafli í Hafnarfirði.

Hnútur foreldranna snérist aðallega um það hvað þau væru hugsanlega búin að gera börnunum sínum, rífa þau upp með rótum úr friðsælu barnvænu umhverfi og demba þeim út í óvissu og óþægindi í nýju umhverfi og fyrir hvað, jú bara af því að þau langaði það. „Þessi hnútur var stór og stækkaði örlítið með hverjum kílómetranum sem leið hjá, að sama skapi stækkaði líka trúin á að breytingar væru hluti af þroskaferli og maður þyrfti nú slatta af kjarki og hugrekki til að taka þetta skref. Sannfæringin jókst um að við værum í rauninni að stækka möguleika allra á að vaxa og dafna, enginn myndi missa neitt af því sem hann átti fyrir og að allir ættu möguleika á að bæta við sig reynslu, nýjum góðum vinum og ævintýrum sem annars myndu ekki verða til.

Það kann að hljóma skrítið en í stóra húsinu á litla staðnum týndust allir dálítið bara í sínu horni. Hér í litlu íbúðinni á stóra staðnum gerum við meira saman. Tíðar sundferðir í snjóbyl og myrkri, gönguferðir með fjórfætluna okkar kvölds og morgna, kaffihúsa- og bíóferðir ásamt nýlegu sumarhúsabrölti svo eitthvað sé nefnt. Það er ómetanlegt, en það þarf auðvitað ekki að flytja milli landshluta til að átta sig á því, maður þarf hinsvegar markvisst að átta sig á því hversu auðvelt er að missa niður þessar mikilvægu samverustundir með því að vera sofandi á verðinum. Stórfjölskyldan öll er síðan dugleg að gera eitthvað skemmtilegt saman og er þessa stundina m.a. stödd öll saman í skíðaferð í Austurríki. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta ekki flókið, að gefa sér tíma með fólkinu sínu við að gera allt og ekki neitt er það eina sem raunverulega skiptir máli.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ástu er Páll Bragason, f. 19.7. 1977, starfsmaður hjá Ásafli. Foreldrar: Hjónin Bragi Þórhallsson, f. 20.5. 1947, d. 11.5. 2002, og Rannveig Pálsdóttir, f. 23.2. 1947, þau voru búsett á Eskifirði en Rannveig býr núna á Reyðarfirði.

Börn: Bragi Hrafn Pálsson, f. 22.8. 2003, og Tanja Ýr Pálsdóttir, f. 16.5. 2006.

Bróðir: Guðgeir Freyr Sigurjónsson, f. 17.5. 1973, forstjóri VHE Íslandi, búsettur í Kópavogi.

Foreldrar: Hjónin Anna Jenný Vilhelmsdóttir, f. 19.5. 1955, skrifstofumaður hjá VHE á Reyðarfirði, og Sigurjón Kristinn Baldursson, f. 30.9. 1953, starfsmanna- og verkefnastjóri hjá VHE á Reyðarfirði. Þau eru búsett á Reyðarfirði.