Endaleysan í braggamálinu ætlar engan enda að taka

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, furðar sig á því að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar, skuli hafa fært fram þau rök í braggamálinu að hópurinn sem vinna átti úr skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar hafi ekki verið með nægilega skilgreinda stjórnskipulega stöðu. Píratar höfðu reyndar borið svipuð rök á borð, enda stutt á milli samfylkingarflokkanna í þessu sem öðru.

En þar sem formaður borgarráðs er svo upptekinn af formlegri stöðu hópsins þá er annað ekki síður undarlegt sem Hildur benti á. Það var að fram hefði komið hjá formanni borgarráðs að hópurinn hefði verið að störfum á milli jóla og nýárs, en að hún hefði aldrei verið boðuð til þeirra funda.

Ef til vill er það orðið þannig hjá borginni að hópar eru aðeins skipaðir til málamynda og þá þykir kannski ekki skipta máli hvort allir þeir sem skipaðir voru í hópana séu líka boðaðir. Óformlegir hópar utan alls skipulags borgarinnar kalla sennilega á slík vinnubrögð. Það skyldi þó ekki vera að lausatök af þessu tagi væru hluti skýringarinnar á framúrkeyrslunni í braggamálinu og öðrum slíkum málum borgarstjórnarmeirihlutans?