Stjórn getur ekki framselt vald sitt til framkvæmdastjóra, jafnvel þó að hluthafafundur samþykki slíka ráðstöfun.

Hlutafélagalöggjöf og reglur félagaréttarins gegna þýðingarmiklu hlutverki hér á landi. Í árslok 2017 var fjöldi starfandi hlutafélaga hér á landi nærri 40 þúsund. Er þar átt við hlutafélög, einkahlutafélög, opinber hlutafélög og samlagshlutafélög og þá ótalinn sá fjöldi félaga sem að meira eða minna leyti starfar samkvæmt þessum reglum. Stjórnir félaga eru kosnar af hluthöfum og fara með málefni félagsins á milli hluthafafunda. Í einkahlutafélögum má stjórn ráða framkvæmdastjóra en í hlutafélögum er það skylt. Til einföldunar verður hér ekki gerður greinarmunur á félagaformum í þessu tilliti. Þá er rétt að fram komi að hugtakið forstjóri kemur ekki við sögu í hlutafélagalöggjöfinni, en víða finnast dæmi um að félög kjósi að nota það starfsheiti. Í lögum er þannig talað um framkvæmdastjóra.

Leiða má líkur að því að almennt séu hugmyndir manna um valdsvið framkvæmdastjóra félags á þá lund, að sá sem til starfsins velst, ráði lögum og lofum í félaginu og ekkert sé þar undan skilið.

Sé litið til 2. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 segir þar að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur og skuli fara eftir stefnu og fyrirmælum sem stjórn félagsins hefur gefið. Þá segir einnig að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem eru „óvenjulegar eða mikils háttar“. Framkvæmdastjóri geti aðeins gert slíkar ráðstafanir samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn félagsins. Sú undantekning er gerð að ef ekki er unnt að bíða ákvörðunar stjórnar, án verulegs óhagræðis fyrir starfsemina, geti framkvæmdastjóri framkvæmt slíka ráðstöfun en verði að tilkynna hana til stjórnar tafarlaust. Ákvæði sambærilegt þessu er í 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög.

Hin einfalda mynd þessa er að atriði sem varða hefðbundnar ráðstafanir eru á færi framkvæmdastjóra. Hins vegar er þetta háð mati, því starfsemi félaga er afar mismunandi og vel getur verið að atriði sem í einu félagi telst óvenjulegt eða mikils háttar, sé daglegt brauð í öðru. Í þessu efni þarf að hafa hliðsjón af skráðum tilgangi félags eins og honum er lýst í samþykktum þess. Þá er ekki sama hvernig aðkomu stjórnar að ákvörðuninni ber að. Telja verður að stjórn þurfi að taka sérstaka ákvörðun um afmarkað tilvik og ekki dugi að veita almennt umboð til ótiltekinna ráðstafana, enda tekið fram í 1. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga að stjórn skuli annast um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.

Í Hæstaréttarmáli Hrd. 678/2008 reyndi á hvort ákvörðun, sem framkvæmdastjóri félags hafði tekið, teldist óvenjuleg eða mikils háttar. Um var að ræða félag í útgerð og vinnslu, en ráðstafanirnar sem framkvæmdastjórinn gerði og hafði sannarlega umboð stjórnar til, lutu að fjármálagerningum. Nánari atvik voru þau að framkvæmdastjórinn hafði fengið umboð stjórnar til að skuldbinda félagið með kaupum og sölu á viðskiptabréfum og til lántöku í þeim tilgangi. Heimildin var ótakmörkuð en áskilið að stjórn væri tilkynnt um ráðstafanirnar eftir á. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að stjórn geti ekki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir, án tillits til hvort þær séu óvenjulegar eða mikils háttar. Varð niðurstaðan sú að umboðið samræmdist ekki 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga. Var því bætt við að engu breytti þó að hluthafafundur samþykki slíkt framsal, en sú var raunin í málinu.

Af þessu má ráða að mikilvægt er að starfsemi félags sé í samræmi við tilgang þess og er það hlutverk stjórnar á hverjum tíma að gæta að því. Sömuleiðis að stjórn getur ekki framselt vald sitt til framkvæmdastjóra, jafnvel þó að hluthafafundur samþykki slíka ráðstöfun. Þó að ekki hafi reynt á það í ofangreindu máli má ganga út frá því að framkvæmdastjóri sem fer út fyrir valdheimildir sínar skv. stöðuumboði, geti bakað sér bótaábyrgð samkvæmt XV. kafla laga um hlutafélög. Það er því að ýmsu að hyggja þegar menn taka að sér forystu í hlutafélagi.