Vefsíðan „Gnóþí seautón“ sögðu Grikkirnir, og rituðu við innganginn á musteri Appolós í Delfí. „Temet nosce“ sögðu Rómverjarnir, og Thomas Hobbes þýddi sem „read thyself“.

Vefsíðan

„Gnóþí seautón“ sögðu Grikkirnir, og rituðu við innganginn á musteri Appolós í Delfí. „Temet nosce“ sögðu Rómverjarnir, og Thomas Hobbes þýddi sem „read thyself“. „Þó ég hafi reynt, mér gengur nógu illa að skilja sjálfan mig,“ söng Pálmi Gunnarsson með Brunaliðinu.

Eitt það hollasta sem við getum gert er að reyna að skilja okkur sjálf. Hvort sem það fæst með því að lesa Jordan Peterson eða hlýða á Alain de Botton á YouTube þá er aukinn sjálfsskilningur fyrir sálina eins og hollur matur er fyrir kroppinn; rennur ekki endilega ljúflega niður en gerir okkur gott.

En síðan má ganga skrefinu lengra með því að auðvelda öðrum að skilja okkur. Þetta vita höfundar vefsíðunnar Personaluserguide.com en þeir hafa smíðað tæki sem gerir notendum fært að búa til n.k. leiðarvísi um sjálfa sig. Á Personaluserguide.com svarar notandinn nokkrum spurningum á einföldu persónuleikaprófi, og vefsíðan býr sjálfkrafa til handhægan leiðarvísi fyrir þá persónugerð sem notandinn tilheyrir.

Það mætti líta á sjálfs-leiðarvísi sem hámark sjálfhverfunnar, en við nánari skoðun er skrítið að við ætlumst til að fá leiðarvísi með þvottavélum, brauðristum og snjallsímum en þykir eðlilegt að hafa engar leiðbeiningar að styðjast við í samskiptum okkar við annað fólk. Með því að vita strax í byrjun sérkenni þeirra sem við umgöngumst, veikleika þeirra og styrkleika, mætti koma í veg fyrir árekstra og misskilning, og tryggja farsælt samband hvort heldur á milli vinnufélaga, vina eða jafnvel lífsförunauta.

ai@mbl.is