[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra áformar að leggja fram á vorþingi frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni þar sem bætt verður við ákvæði sem heimilar rekstur og starfsemi neyslurýma að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem kveðið verður á um í reglugerð. Meginreglan er sú að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna er óheimil skv. 1. mgr. 2. gr. laganna og kveðið er á um eina undantekningu í 3. mgr. Áætlað er að kveða á um neyslurými í nýrri grein, 2. gr. a, í lögunum. Áform þessi eru nú kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt vímuefna um æð, undir handleiðslu heilbrigðisstarfsmanna, og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Rætt hefur verið um það um nokkra hríð hvort opna eigi neyslurými hér á landi en slík rými hafa verið rekin í fjölmörgum löndum, meðal annars í Danmörku. Alls er talið að um 90 neyslurými séu rekin um heim allan. Byggjast neyslurými á hugmyndafræði skaðaminnkunar.

Heilbrigðisráðherra hefur unnið að innleiðingu þessara breytinga um nokkurt skeið. Hún hafði þetta um neyslurými að segja í grein í Morgunblaðinu í febrúar í fyrra:

„Þeir sem eiga við mestan vímuefnavanda að etja stunda neyslu sína oft við hættulegar og heilsuspillandi aðstæður sem valda enn meiri skaða en ella og stuðla að veikindum og jafnvel dauða. Markmiðið er því fyrst og fremst að tryggja öryggi neytenda eins og kostur er.“

Telja þörfina brýna

Forsaga málsins er sú að í júní 2016 lagði þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fram skýrslu á Alþingi um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild, eins og það er orðað í kynningu í samráðsgáttinni.

Starfshópur sem vann skýrsluna fyrir ráðherra lagði til að kannað yrði hversu ítarleg þörfin væri fyrir uppsetningu neyslurýma fyrir einstaklinga sem nota vímuefni með sprautubúnaði.

Þörfin reyndist brýn fyrir uppsetningu neyslurýma, enda voru alls um 2.800 heimsóknir til Frú Ragnheiðar árið 2017 og hafði farið fjölgandi frá árinu 2016. Frú Ragnheiður er sem kunnugt er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin. Í honum er boðið upp á hjúkrunarmóttöku og þar geta einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur og fleira.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mun taka þátt í verkefninu um neyslurými og útvegar húsnæði fyrir það. Þá hefur Rauði krossinn á Íslandi fallist á að sinna þjónustunni. Í upphafi er gert ráð fyrir að opið verði á dagvinnutíma alla daga vikunnar.

Um tilraunaverkefni er að ræða og eru 50 milljónir króna eyrnamerktar til þess á fjárlögum ársins. Gert er ráð fyrir tveimur stöðugildum, þar af verður heilbrigðismenntaður starfskraftur í öðru þeirra. Kostnaður vegna launa og tengdra gjalda er áætlaður 28-30 m.kr. Annar rekstrarkostnaður er metinn á um 20 millj. kr.