Skarfabakki Fyrirhuguð landfylling mun koma fyrir framan skolphreinsistöð Veitna, vinstra megin á myndinni.
Skarfabakki Fyrirhuguð landfylling mun koma fyrir framan skolphreinsistöð Veitna, vinstra megin á myndinni. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Áform um nýja þriggja hektara landfyllingu við Skarfabakka í Sundahöfn eru í óvissu eftir að Veitur, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, lögðust gegn fyrirhuguðum breytingum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Áform um nýja þriggja hektara landfyllingu við Skarfabakka í Sundahöfn eru í óvissu eftir að Veitur, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, lögðust gegn fyrirhuguðum breytingum.

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi fyrir Sundahöfn var auglýst seinni hluta ársins 2018. Í athugasemdum Veitna við tillöguna segir m.a. að hún samræmist ekki þörf Veitna um aukið landsvæði til að geta sinnt kröfum um aukna hreinsun skólps til langrar framtíðar. Veitur hafi komið þessu sjónarmiði á framfæri við Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir og telja að afmörkun sem fram kemur í samþykktu deiliskipulagi Klettasvæðis styrki enn fremur tilkall Veitna til svæðisins.

Skólpi dælt á haf út

Veitur reka skólphreinsistöð í Klettagörðum, sem var tekin í notkun árið 2002. Í stöðinni fer fram grófhreinsun, en í því felst að öll föst efni stærri en 3 millimetrar í þvermál eru síuð frá skólpinu í fimm grófsíum (þrepasíum). Að auki eru fita og sandur skilin frá skólpinu. Eftir þessa hreinsun er skólpinu síðan dælt út í sjó um 5,5 kílómetra langa útræsislögn. „Til að mæta auknum kröfum sem búast má við í reglugerðum og markmiðum Veitna um hreinar strendur – alltaf, meiri nýtingu á orkustraumum og vegna umhverfissjónarmiða þarf á næstu árum að bæta við hreinsiþrepum,“ segir í athugasemdum Veitna.

Þetta feli í sér stækkun hreinsistöðvanna við Klettagarða og Ánanaust. Ekki er búið að meta þörf á landrými undir mannvirkin en skv. útreikningum Veitna er plássþörf fyrir stækkun hreinsistöðvarinnar við Klettagarða u.þ.b. 5 hektarar. Veitur leggjast gegn breytingum á hafnarsvæðinu samkvæmt kynntri tillögu þar sem sú landfyllingin samræmist ekki þörf Veitna um aukið landsvæði til að geta sinnt kröfum um aukna hreinsun skólps til langrar framtíðar. Veitur óska eftir auknu landrými fyrir stækkun hreinsistöðvarinnar í Klettagörðum sem hluta af fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu og að afmörkun núverandi iðnaðarsvæðis í aðalskipulaginu verði stækkað sem því nemur.

„Landfyllingin, eins og hún er teiknuð upp í tillögu að nýrri aðalskipulagsbreytingu, fer yfir sjólagnir Veitna frá hreinsistöð inni og þarf að skoða vel efnisval og burðargetu lagna áður en landfyllingin er heimiluð. Þetta hefur ekki verið skoðað og ekki hefur heldur verið skoðað hvert hægt er að flytja þær og hvort það gengur upp,“ segja Veitur.