Eyþór Máni Steinarsson ásamt Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur rekstrarstjóra. Í fyrstu verða gerðar tilraunir með að selja bílaþvottaþjónustu í gegnum forritið. Á myndina vantar Sólon Örn Ævarsson og Ómar Högna Guðmarsson.
Eyþór Máni Steinarsson ásamt Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur rekstrarstjóra. Í fyrstu verða gerðar tilraunir með að selja bílaþvottaþjónustu í gegnum forritið. Á myndina vantar Sólon Örn Ævarsson og Ómar Högna Guðmarsson. — Morgunblaðið/Hari
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Sigurvegarar Gulleggsins eru að þróa lausn sem ætti að einfalda leitina að einhverjum til að passa börnin, þrífa heimilið eða viðra hundinn.

Eyþór Máni Steinarsson segir forritið Greiða gegna ekki ósvipuðu hlutverki og töflurnar sem finna má í flestum hverfisverslunum þar sem fólk auglýsir alls kyns þjónustu. „Greiði er markaðstorg fyrir minniháttar verk, allt frá garðslætti og gönguferðum með heimilishundinn yfir í þrif og viðgerðir. Hver sem er getur boðið fram krafta sína og hver sem er leitað að þeirri þjónustu sem hann vantar.“

Eyþór er framkæmdastjóri Greiða en um er að ræða nýstofnað sprotafyrirtæki sem varð á dögunum hlutskarpast í keppninni um Gulleggið. Greiða-forritið er enn á byrjunarstigi en þegar búið er að fullþróa hugbúnaðinn segir Eyþór að notendur muni geta leitað að verktökum í ótal þjónustuflokkum og ýmist beðið um tilboð eða valið þann sem þeim hentar best til að taka að sér verkefni samkvæmt föstum taxta. „Það má finna sambærileg forrit og vefsíður erlendis, allt frá gömlum en einföldum smáauglýsingasíðum á borð við Craigslist yfir í flóknari snjallsímaforrit eins og TaskRabbit sem m.a. varð þekkt fyrir að tengja saman kaupendur IKEA-húsgagna og handlagna einstaklinga sem treysta sér til að setja húsgögnin saman gegn vægu gjaldi. Eiga erlendu forritin það þó sameiginlegt að vera takmörkuð við eitt eða mjög fá markaðssvæði.“

Seljendur og kaupendur græða

Með því að búa til notendavænt markaðstorg vonast aðstandendur Greiða til að geta auðveldað verktökum að vinna sér inn aukatekjur í nærsamfélagi sínu og bjóða á sama tíma kaupendum að fá góða þjónustu á sanngjörnu verði. Gerir viðskiptaáætlunin ráð fyrir að Greiði taki 10% umsýslugjald sem fari lækkandi eftir upphæð og tíðni viðskipta. „Við gerum okkur grein fyrir að þegar um regluleg viðskipti er að ræða, s.s. barnapössun, þrif eða garðslátt er hætta á að kaupandi og seljandi fari með viðskiptin út fyrir kerfið okkar, en þann vanda getum við leyst með virðisaukandi þáttum á borð við tryggingu sem ver kaupandann fyrir mögulegu tjóni. Þá sjáum við fyrir okkur að notendur vilji ekki alltaf versla við sama verktakann, og verði stundum að skipta enda barna- eða hundapían þeirra ekki endilega alltaf laus þegar hennar er þörf.“

Leysa þarf úr ýmsum öðrum áskorunum, eins og t.d. að Greiði geti mögulega orðið vettvangur fyrir ólögleg viðskipti. „Við önnumst það sjálf að skilgreina hvaða tegund þjónustu verður í boði, en gerum okkur um leið grein fyrir að meira að segja risar á borð við Facebook hafa ekki getað gulltryggt að þeirra tækni sé ekki notuð til að selja eitthvað misjafnt,“ útskýrir Eyþór. „Tæknin býður auk þess upp á að seljendur auðkenni sig með óyggjandi hætti og fái t.d. ekki að selja tiltekna þjónustu án þess að hafa tilskilin leyfi eða hreina sakaskrá.“

Jafnvægislist deilihagkerfisins

Þar með eru hindranirnar ekki upptaldar og glímir Greiði t.d. við sama vandamál og Uber eða Airbnb þar sem tryggja þarf strax frá fyrsta degi að gott jafnvægi sé á fjölda seljenda og kaupenda. Ef kaupendurna vantar verða seljendurnir óánægðir, og ef seljendurna vantar hætta kaupendur að nota forritið. Í sumum tilvikum segir Eyþór að lausnin sé m.a. fólgin í því að efna til samstarfs við einyrkja sem þegar bjóða þjónustu sína.

„Rannsóknir okkar hafa leitt í ljós að það er t.d. töluverður fjöldi einstaklinga sem annast garðslátt, þrif á íbúðum og viðgerðir á rafmagnstækjum en hafa ekki burði til að markaðssetja sig, halda úti eigin pöntunarkerfi eða vefsíðu. Er mikill ávinningur af því fyrir þennan hóp að nýta sér Greiða sem viðbót við núverandi rekstur.“

Hópurinn á bak við Greiða er um þessar mundir að ljúka gerð prufuútgáfu sem notuð verður til að sannreyna hvort áhugi er á þjónustunni. „Í góðu samstarfi við nokkra verktaka munum við byrja á því að bjóða notendum að panta heimsend bílaþrif þar sem bíllinn er þveginn á meðan hann stendur í heimreiðinni eða fyrir utan vinnustaðinn,“ segir Eyþór og bætir við að ef vel gengur verði frekari vinna lögð í þróun og forritun samhliða því að fleiri tegundir þjónustu bætast við úrvalið. Þá stendur til að sækja um frekari styrki og vonandi komast að hjá Startup Reykjavík í sumar.