Guðmundur G. Hauksson
Guðmundur G. Hauksson
Eftir Guðmund G. Hauksson: "Miðað við meðalmánaðarlaun hjá VR (kr. 700.000) gæti aukinn rekstrarkostnaður vegna áreitni á vinnustöðum verið 10-11 milljarðar á ári."

Ein skilgreiningin á andlegu ofbeldi, einelti eða áreiti er: „Athöfn af endurtekinni árásargjarnri hegðun til þess að vísvitandi skaða annan aðila. Þetta einkennist af því að einstaklingur hegðar sér á ákveðinn hátt til að öðlast vald yfir annarri manneskju.“ Þeir sem áreita nýta sér veikleika: líkamlegar takmarkanir, sjúkdóma, andleg eða tilfinningaleg vandamál, lægri félagslega stöðu, fötlun o.s.frv. Þessir aðilar hafa oft eigin sálfræðileg vandamál og sumir hafa jafnvel lítið sjálfsálit, fíknivandamál, reiði eða aðrar persónulegar truflanir. Árásargjörn hegðun svona aðila er yfirleitt leið til að bæta fyrir eigin vanhæfni og miðgildi.

Samkvæmt könnun hjá Reykjavíkurborg og niðurstöðum úr henni, sem birtar voru í skýrslu velferðarráðuneytis á árinu 2015, kom í ljós að um 10% starfsmanna sögðust hafa orðið fyrir áreitni í starfi á síðustu 12 mánuðum. Ef þessar niðurstöður væru færðar yfir á allan vinnumarkaðinn hér á landi (203.500 manns í janúar 2018) væri þetta um 20.000 manns á ári. Í Bandaríkjunum segja rannsóknir að 17% þeirra sem verða fyrir áreitni telji sig ekki hafa annan kost en segja upp starfi sínu og ef tölurnar eru sambærilegar hér á Íslandi væri þetta um 3.400 manns. Talið er að kostnaður fyrirtækja og stofnana vegna starfsbreytinga geti verið allt að 40% ofan á hefðbundin laun. Miðað við meðalmánaðarlaun hjá VR (kr. 700.000) gæti árlegur aukinn rekstrarkostnaður vegna áreitni á vinnustöðum verið 10 til 11 milljarðar á ári.

Það eru því miður ekki til góðar rannsóknir sem sýna þá þróun sem hefur orðið hér á Íslandi í gegnum árin varðandi áreitni, en margir hafa á tilfinningunni að þetta hafi eitthvað lagast seinni árin og sérstaklega á árinu 2018 vegna „Metoo“-byltingarinnar. Hér um að ræða mikið þjóðfélagslegt mein og gríðarlegan kostnað sem fyrirtæki og stofnanir sitja uppi með sem afleiðingu af þessu vandamáli. Það er því til mikils unnið að bæta vinnustaðamenninguna hér á Íslandi.

Gæti lækkað launakostnað

Nýlega hefur ákveðinn hópur aðila í samfélaginu tekið sig saman um að stuðla að betra siðferði í samfélaginu og stofna til verkefnis undir formerkjum www.sidferdi.is. Fyrsta stóra verkefnið verður að kynna siðferðissáttmála fyrir vinnustaði sem gæti verið besta leiðin til að minnka líkur á andlegu ofbeldi, einelti og áreitni. Í siðferðissáttmála myndu starfsmenn skrifa undir samkomulag um ákveðnar leikreglur í samskiptum sín á milli. Samhliða þessu væri áhugavert að starfsfólk mundi læra ákveðin grunnatriði í samskiptafærni sem væru byggð á virðingu, umburðarlyndi og skilningi. Með því að setja saman ákveðin gildi og grunnviðmið í siðferðissáttmála væri verið að leggja grunn að aukinni yfirvegun og ábyrgð í samskiptum í starfsumhverfi fyrirtækja og stofnana. Þannig væri dregið úr því að starfsmenn beiti yfirgangi og lögð áhersla á að allir vinni saman innan ákveðins ramma. Með þessu væri lagður grunnur að minna einelti og áreitni sem gæti skilað verulega lægri launakostnað í fyrirtækjum og stofnunum.

Höfundur er stofnaðili að www.sidferdi.is og framkvæmdastjóri Gordon Training Iceland. gudmundur@gordon.is