Kínverski hershöfðinginn He Lei varaði stuðningsmenn sjálfstæðis Taívans við því í gær að þeir kynnu að vera dæmdir sem „stríðsglæpamenn“ ef svo færi að kínverski herinn neyddist til að taka eyjuna með hervaldi.

Kínverski hershöfðinginn He Lei varaði stuðningsmenn sjálfstæðis Taívans við því í gær að þeir kynnu að vera dæmdir sem „stríðsglæpamenn“ ef svo færi að kínverski herinn neyddist til að taka eyjuna með hervaldi.

„Stuðningsmenn aðskilnaðarins verða að hætta í tæka tíð til þess að forðast stórslys, sjá að sér og snúa aftur á rétta braut. Annars eiga þeir á hættu að verða úrhrök kínversku þjóðarinnar, fordæmdir af sögunni,“ sagði He á blaðamannafundi sínum.

Ummæli Hes voru látin falla í kjölfar þess að Xi Jinping, forseti Kína, tilkynnti í síðustu viku að Kínverjar myndu ekki hafna þeim möguleika að hervaldi yrði beitt gegn Taívan, og lofaði því að sameining Kína og Taívan væri „óumflýjanleg“. Stjórnvöld í Kína líta svo á að Taívan sé enn hluti af ríki sínu, þó að eyjan hafi ekki lotið stjórn þeirra frá lokum kínversku borgarastyrjaldarinnar árið 1949.