Á niðurleið Stórlega hefur dregið úr reykingum síðari ár.
Á niðurleið Stórlega hefur dregið úr reykingum síðari ár. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Bjórinn laus úr banni,“ sagði í fyrirsögn í frétt í Morgunblaðinu fyrir tæpum 30 árum. Miðvikudaginn 1.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Bjórinn laus úr banni,“ sagði í fyrirsögn í frétt í Morgunblaðinu fyrir tæpum 30 árum. Miðvikudaginn 1. mars 1989 leyfðist Íslendingum „að kaupa áfengt öl, bjór öðru nafni, með löglegum hætti hérlendis í fyrsta sinn síðan árið 1915“, sagði í blaðinu. Bjórsala hefur aukist með hverju árinu síðustu 30 árin, en síðustu ár hefur stórlega dregið úr sölu á vindlingum og hugsanlega hefur ekki minna verið selt af sígarettum hér á landi í hálfa öld heldur en á síðasta ári. Ýmislegt fleira forvitnilegt kemur í ljós þegar gluggað er í sölutölur frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, meðal annars að sala á neftóbaki tók aftur kipp í fyrra eftir samdrátt árið 2017.

Mikill bjór hefur til sjávar runnið frá 1989 og enn eitt metið var slegið í bjórsölu á nýliðnu ári. Af áfengi seldust í fyrra 22 milljónir lítra og þar af vegur bjórinn langsamlega þyngst. Alls seldust þá rúmlega 17 milljón lítrar bjórs og tegundir í boði skiptu tugum. Til hátíðabrigða var eins og áður meðal annars boðið upp á þorrabjór, páskabjór og af jólabjór voru fleiri tegundir á boðstólum en nokkru sinni. Í tíu mánuði árið 1989 seldust tæplega sjö milljónir lítrar af bjór. Salan fór í fyrsta skipti yfir tíu milljónir lítra 2001.

Ef til vill er hann beztur ódrukkinn

Eflaust hefur bjórinn haft mikil samfélagsleg áhrif á þeim tæplega þremur áratugum sem liðin eru frá bjórbanni. Margvíslegar skoðanir eru trúlega á sölu bjórs, bæði með og á móti, en óhætt er að fullyrða að erfitt yrði að stíga skrefið til baka. Tölurnar í meðfylgjandi töflu tala sínu máli.

„Margt er manna bölið, misjafnt drukkið ölið,“ segir í fornum hendingum, sem voru rifjaðar upp í forystugrein í Morgunblaðinu á bjórdaginn. Þar var farið yfir sviðið undir fyrirsögninni „prófsteinn“ og í leiðaranum segir meðal annars:

„Og fyrst og síðast verður hinn áfengi bjór prófsteinn á Íslendinga, sem þjóð og einstaklinga. Ástæða er því til að hvetja fólk til að taka á móti bjórnum með varúð og hófsemd. Ef til vill er hann beztur ódrukkinn. En þeir sem vilja öl til vinar drekka ættu að hafa í huga, að bjór er áfengi og að um hann gilda allar sömu reglur og staðreyndir, siðferðilegar, heilsufarslegar og lagalegar, sem aðrar áfengistegundir.“

176 milljónir af sígarettum þrátt fyrir samdrátt

ÁTVR seldi í fyrra tæplega 882 þúsund karton af vindlingum, en sala þeirra hefur farið minnkandi flest undanfarin ár. Eigi að síður seldi ÁTVR rúmlega 176 milljónir sígarettna á síðasta ári, miðað við að 20 vindlingar séu í pakka, tíu pakkar í kartoni og því alls 200 sígarettur í hverju kartoni.

Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis, segir að ekki séu til samanburðarhæfar tölur um reykingar fólks fyrir 1985, en í seinni tíð séu nákvæmar upplýsingar fyrir hendi og þar sé samræmi á milli sölutalna frá ÁTVR og úr könnunum. Síðustu ár hafi dregið úr daglegum reykingum í nánast öllum aldurshópum.

Ekki minna reykt í 40-50 ár

„Við höfum talað um faraldur í reykingum hérlendis á síðari hluta síðustu aldar. Í tölum frá 1985 kemur fram að nánast helmingur karlmanna á Íslandi reykti daglega. Reykingar gætu hafa verið enn algengari 10-15 árum fyrr, en um það vantar samanburðarhæfar tölur svo við getum sagt til um það með fullri vissu hversu almennar reykingar voru á þessum tíma. Ég held þó að óhætt sé að segja að tóbaksreykingar hafi ekki verið minni heldur en núna í 40-50 ár,“ segir Viðar.

Samkvæmt niðurstöðum kannana á vegum landlæknis reyktu 14% fullorðinna Íslendinga, árið 2012 en tæplega 9% samkvæmt könnun í fyrra og nær enginn munur var á heildartíðni daglegra reykinga milli karla og kvenna. Samkvæmt sölutölum ÁTVR hefur enn dregið úr reykingum og segir Viðar það gleðiefni.

Veigamiklir þættir

Í grein í Talnabrunni Embættis landlæknis í sumar voru sex lykilatriði nefnd sem veigamikil í baráttu gegn reykingum hér á landi: Virk verðstýring, reyklaus svæði, upplýsingar um skaðsemi tóbaks í fjölmiðlum, bann við auglýsingum á tóbaki, viðvörunarmerkingar á tóbaksvörum og aðstoð við að hætta tóbaksnotkun.

Þá nefnir Viðar að Íslendingar hafi í byrjun aldarinnar verið í fararbroddi á heimsvísu við að leyfisskylda sölu á tóbaki og á sama tíma hafi verið tekið upp sýnileikabann á tóbaki á Íslandi. Auk þess hafa verið stundaðar hér á landi virkar forvarnir gegn tóbaksnotkun ungmenna í um hálfa öld. Dagur án tóbaks var fyrst haldinn á Íslandi árið 1979 en hefur verið haldinn árlega hér á landi frá árinu 1987.

Áhyggjur af notkun ungra kvenna á tóbaki í vör

Neftóbak er varla réttnefni lengur því stór hluti þess fer í vör notandans. Eftir að tóbaksgjald var samræmt í byrjun árs 2017 er nú greiddur sami skattur fyrir gramm af nef- eða munntóbaki og af öðru tóbaki. Þetta leiddi til verulegrar verðhækkunar, sem er talin hafa orsakað samdrátt í sölu neftóbaks 2017 þegar salan fór úr tæplega 40 tonnum í tæp 38 tonn. Salan tók síðan hressilega við sér aftur í fyrra og nam þá tæplega 45 tonnum.

Viðar segist hafa áhyggjur af notkun ungs fólks á tóbaki í vör. Reyndar hafi dregið úr slíkri notkun meðal karla á aldrinum 18-24 ára, en síðustu misseri hafi ungar konur farið að taka tóbak í vör í auknum mæli. Þannig mældist dagleg notkun 3% í aldurshópi 18-24 ára kvenna. Þetta sé slæm þróun og í Noregi sé hlutfall ungra kvenna sem noti tóbak í vör enn hærra en hér og mikið áhyggjuefni þar í landi.

Árið 2018 var tíðni daglegrar notkunar á tóbaki í nef um 3% meðal karla, 18 ára og eldri. Mest var notkunin í aldurshópnum 45-54 ára eða tæplega 7%. Mun algengara er að karlmenn á landsbyggðinni noti tóbak í nef heldur en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Vaxandi fjöldi notar rafrettur

Svo eru það rafretturnar en um sölu á þeim hafa gilt önnur lögmál en í einkasölu ríkisins á tóbaki og áfengi. Notkun þeirra hefur aukist mjög síðustu ár og á vafalítið stóran þátt í minnkandi sölu á vindlingum.

Dagleg notkun á rafrettum meðal 18 ára og eldri mældist um 5% í könnun Landlæknis í fyrra sem samsvarar því að um 10.700 manns hafi notað rafrettur. Árið 2015 notuðu um 1.700 manns rafrettur daglega. Dagleg notkun á tóbaki í vör og dagleg notkun á rafrettum er algengari en daglegar reykingar í aldurshópnum 18-34 ára.