Karl Ægir Karlsson
Karl Ægir Karlsson
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Karl Ægir Karlsson telur að fyrstu áhrifa erfðabreytingatækninnar muni gæta í matvælaframleiðslu. „Crispr-Cas9 virkar ekkert síður á tómata en á okkur.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Karl Ægir Karlsson telur að fyrstu áhrifa erfðabreytingatækninnar muni gæta í matvælaframleiðslu. „Crispr-Cas9 virkar ekkert síður á tómata en á okkur. Það er engin spurning að áhrifin verða fyrst í fiskeldi og landbúnaði. Númer tvö verða þau í læknavísindum og lyfjaþróun. Í þriðja lagi, ef við ákveðum að fara þá leið, munu þau birtast í mönnum.“

Karl segist ekki sjálfur sjá neinn tilgang í því að erfðabreyta mönnum en hann gerir þó fastlega ráð fyrir að það verði gert. „Þú veist hvernig menn eru – er eitthvað sem við getum sem við gerum ekki? Sumir tattúvera sig, aðrir fá sér grænan hanakamb og enn aðrir gata sig alla. Fólk gerir allt mögulegt við sig sjálft. Þarna ertu bara með tól sem er þúsundfalt kröftugra en nokkurt annað tól sem við höfum búið yfir.“

Karl bendir á arfbótahreyfingu 20. aldarinnar sem fordæmi fyrir viðleitni manna til þess að vilja breyta mönnum og rækta nýjan stofn. Aðspurður hvort hugmyndafræðileg tenging við svo alræmda hreyfingu komi ekki til með að varpa neikvæðu ljósi á erfðabreytingar segir Karl að það geti vel verið, en bætir við: „Ég hef lítið vit og áhuga á almenningsumræðunni. Annars vegar reynir siðfræðin og hins vegar lögfræðin að elta þessa tækni. Þeir sem leggja þær línur eiga fullt í fangi með að fylgjast með og skilja tæknina. Þær greinar virka ansi fornar við hliðina á þessari tæknigrein.

Það er nóg að lesa bara umræðuna um erfðabreytt matvæli eða bólusetningar til að skilja hvað er erfitt að koma skilaboðum áleiðis. Ef maður byrjar að reyna að koma sinni þekkingu á málefninu til skila er maður jafnan sakaður um menntahroka. En þessi tækni mun æða áfram. Ég veit engin dæmi þess í mannkynssögunni að menn uppgötvi eitthvað svona og láti það síðan eiga sig. Arfbótahreyfingin var ekki jaðarhreyfing fyrir svo stuttu.“