Breiðholt Starfsfólkið er sagt kvíða þeim breytingum sem horft er til.
Breiðholt Starfsfólkið er sagt kvíða þeim breytingum sem horft er til. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Helst hef ég áhyggjur af því að tapa fagfólki sem þegar er af skornum skammti, enda stundum erfitt að manna leikskólana.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Helst hef ég áhyggjur af því að tapa fagfólki sem þegar er af skornum skammti, enda stundum erfitt að manna leikskólana. Það eru auðvitað alltaf átök þegar farið er í sameiningar, ekki bara fyrir starfsfólk heldur einnig börn og foreldra. Þetta myndi því setja báða leikskóla í hálfgerða upplausn,“ segir Berglind Hallgrímsdóttir, starfandi leikskólastjóri á Suðurborg í Breiðholti.

Vísar hún í máli sínu til tillögu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um sameiningu tveggja leikskóla, Suðurborgar og Hólaborgar, í Suðurhólum í Breiðholti. Er í tillögunni gert ráð fyrir að með sameiningu verði til nýr leikskóli 10 deilda með um 160 börn og með sérhæfðri ungbarnadeild. Í dag liggja lóðir skólanna saman og eru þær aðskildar með girðingu, en 43 metrar eru á milli Suðurborgar og Hólaborgar.

Aðspurð segir Berglind „áhyggjuhljóð“ vera í starfsfólki á Suðurborg. „Það kvíðir þessum fyrirhuguðu breytingum og ég hef áhyggjur af því að missa starfsfólk. Það mun svo hafa áhrif heim til foreldra og auðvitað á starfið með börnunum,“ segir hún og bætir við að foreldrar séu þegar búnir að óska eftir fundi með starfsfólki leikskólans. „Fólk vill fara betur yfir þetta,“ segir hún.

Borgin vill stórar einingar

Sigrún Grétarsdóttir er starfandi leikskólastjóri á Hólaborg. Hún tekur í svipaðan streng og hugnast ekki hugsanleg sameining skólanna.

„Þetta er ekki eitthvað sem við í skólanum myndum velja sjálf. En stefna Reykjavíkurborgar er að vera með stóra leikskóla og margar deildir og það er það sem þeir stefna að,“ segir hún og bætir við að Hólaborg sé lítill leikskóli, með þrjár deildir og um 50 börn. Suðurborg er hins vegar sjö deilda leikskóli fyrir 113 börn.

„Svo má ekki gleyma því að innan þessara tveggja skóla er rekin ólík uppeldisstefna,“ segir Sigrún og á þar meðal annars við að í starfi Suðurborgar er farið eftir hugmyndafræði sem byggist á jákvæðu agakerfi, svonefnt PBS, auk þess sem hann sinnir einnig atferlisþjálfun fyrir börn á einhverfurófi. Á Hólaborg er aftur á móti lögð áhersla á að auka flæði í leikskólastarfinu, ferilmöppur, skráningar og hópastarf.

„Einfaldlega of mikið í húfi“

Fram kemur í greinargerð með tillögu um sameiningu leikskólanna að bæði Berglind og Sigrún stýri leikskólum sínum tímabundið eftir að leikskólastjórar létu af störfum og renna tímabundnar ráðningar þeirra beggja út 31. mars næstkomandi. Verði af sameiningu myndi einn leikskólastjóri verða ráðinn í stað tveggja. Þá er einnig gert ráð fyrir sparnaði í rekstri mötuneyta með breyttu fyrirkomulagi. Yrði hádegisverður framleiddur í Suðurborg en eldhús Hólaborgar fengi hlutverk móttökueldhúss. Þá er í greinargerð einnig minnst á nýlega viðbyggingu við Suðurborg, sem reist var til að bæta starfsmannaaðstöðu þar, og er hún sögð myndu nýtast í stærra samhengi þar sem aðstaða starfsmanna í Hólaborg er sögð bágborin.

Örn Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og aðalmaður í skóla- og frístundaráði, tekur undir áhyggjur Berglindar. „Allur óróleiki getur leitt til brottfalls menntaðs starfsfólks og það er mikið áhyggjumál enda þurfum við á hverjum einasta starfsmanni að halda,“ segir hann og heldur áfram: „Ég tel þörf á því að taka þetta mál til frekari skoðunar á næsta fundi ráðsins. Það er einfaldlega of mikið í húfi.“