Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem dró upp hníf og ógnaði starfsmönnum fyrirtækis í Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til 28. janúar. Maðurinn er einnig grunaður um að hafa framið fjölmörg önnur brot.

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem dró upp hníf og ógnaði starfsmönnum fyrirtækis í Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til 28. janúar. Maðurinn er einnig grunaður um að hafa framið fjölmörg önnur brot.

Lögreglu barst tilkynning klukkan sex að morgni sunnudagsins 30. desember um mann sem vitni kom að er hann hafði brotist inn í bifreið umrædds vitnis. Sá leiddi manninn í afgreiðslu fyrirtækis til þess að hringja á lögreglu en þegar þangað var komið dró maðurinn upp hníf og hótaði starfsmönnunum að skera þá á háls og drepa fjölskyldur þeirra. Þá sagðist hann ekki ætla í fangelsi aftur.

Maðurinn lagði síðan á flótta en skildi eftir bakpoka með fatnaði og ýmsum munum sem stolið hafði verið úr bílum á svæðinu.

Hann var síðan handtekinn klukkan 18 sama dag og gekkst við því við yfirheyrslur að hafa brotist inn í bíl og stolið þaðan 2.000 krónum í smámynt. Bakpokann sagði hann sinn en kannaðist hvorki við að hafa hótað starfsmönnum né að hafa dregið upp hnífinn.

Lögregla hefur til meðferðar tólf önnur mál sem maðurinn liggur undir rökstuddum grun um að hafa framið.