Skólastjóri Skýst suður og hitti fólkið mitt, segir Jóhanna Guðmundsdóttir.
Skólastjóri Skýst suður og hitti fólkið mitt, segir Jóhanna Guðmundsdóttir.
Satt að segja hef ég ánægju af öllum stefnum og straumum í tónlist. Er tilbúin að gefa öllu tækifæri ef ég heyri stef eða takta sem grípa athygli mína,“ segir Jóhanna Guðmundsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Stykkishólms, sem er 65 ára í dag.

Satt að segja hef ég ánægju af öllum stefnum og straumum í tónlist. Er tilbúin að gefa öllu tækifæri ef ég heyri stef eða takta sem grípa athygli mína,“ segir Jóhanna Guðmundsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Stykkishólms, sem er 65 ára í dag. Hún er ættuð úr Gaulverjabæjarhreppi í Flóa, fædd og uppalin á Selfossi, en fór liðlega tvítug vestur í Ólafsvík og kenndi þar tónlist í tvo vetur.

„Ég byrjaði ung í tónlistarnámi og söng í kór á Selfossi. Snerti síðan ekkert á tónlistinni í nokkur ár, fór í Verslunarskólann og lauk þaðan prófi. Sneri mér svo aftur að tónlistinni, tók kennarapróf og var munstruð til starfa vestur í Ólafsvík og kenndi þar í tvo vetur. Var svo á heimleið, ef svo mætti segja, en á fallegu vorkvöldi fór ég á ball í félagsheimilinu Röst þar sem ég í orðsins fyllstu merkingu féll fyrir bakaranum í Stykkishólmi, Guðmundi Teitssyni. Þar má segja að örlög mín hafi verið ráðin, að minnsta kosti sneri ég ekki aftur heim á Suðurlandið eins og ætlunin þó var.“

Í Stykkishólmi hefur Jóhanna sinnt mörgu. „Í fjölskyldufyrirtækinu bakaði ég og sá um bókhaldið og um hríð stýrði ég hagsmunafélagi atvinnurekenda hér. Þá hef ég verið organisti við Stykkishólmskirkju, kennt við grunnskólann og stýrt tónlistarskólanum frá 2005. Þar eru í dag um 100 nemendur og sjálf gríp ég aðeins í kennslu,“ segir Jóhanna sem kveðst eftir rúmlega fjörutíu ára búsetu fyrir löngu hafa fest rætur í Hólminum. Það sé hennar heimabær.

„Ég þarf að skjótast suður til Reykjavíkur á afmælisdeginum. Næ því að hitta eitthvað af fólkinu mínu sem þar býr og hlakka til þess,“ segir Jóhanna. Þau Guðmundur eiga tvo syni; Helga Reyni sem býr í Kópavogi og Ólaf sem búsettur er í Serbíu og starfar þar fyrir íslenskt fyrirtæki. Þá átti Guðmundur fyrir tvö börn, Ásgeir og Ebbu Guðnýju.