Keilir Námi í tölvuleikjagerð er ætlað að koma til móts við þá sem flosnað hafa upp úr námi.
Keilir Námi í tölvuleikjagerð er ætlað að koma til móts við þá sem flosnað hafa upp úr námi. — Ljósmynd/Keilir
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Menntamálaráðuneytið hefur heimilað Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs að fara af stað með nýja námsleið til stúdentsprófs. Er það í fyrsta sinn frá stofnun Keilis árið 2007 sem það er gert.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Menntamálaráðuneytið hefur heimilað Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs að fara af stað með nýja námsleið til stúdentsprófs. Er það í fyrsta sinn frá stofnun Keilis árið 2007 sem það er gert.

Námið er 200 framhaldsskólaeininga námsleið með áherslu á tölvuleikjagerð. Um er að ræða tilraunaverkefni og geta 40 nemendur hafið nám í haust. Keilir tekur þátt í Erasmus +-verkefni um sama efni og er í samstarfi við erlenda skóla sem hafa reynslu af slíkri kennslu að sögn Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Keilis.

„Nýjar aðferðir náms til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð eru svar við kalli ungs fólks um að mennta sig á eigin forsendum en ekki kerfisins þar sem hinn fróði standi á kassa og messi yfir nemendum. Hvatning nemenda á að koma innan frá en ekki utan frá,“ segir Hjálmar, sem vonast til þess að námið komi til móts við þá nemendur sem finna sig ekki í hefðbundna skólakerfinu en slíkt eigi sérstaklega við um drengi í framhaldsnámi.

Hjálmar segir að markmið námsins sé að skila þaðan nemendum sem hafi þroska og getu til að afla sér upplýsinga í hraða upplýsingasamfélagsins, meta þær á gagnrýninn hátt, vera frjó í hugsun og geta unnið með öðrum.

Hjálmar segir að í framtíðarspám atvinnulífsins sé litið til þessara eiginleika. Tölvuleikjaiðnaðurinn velti nú meira fé en bæði kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn og búist sé við meiri vexti. Á Íslandi séu tekjur af leikjaiðnaði nær eingöngu í formi útflutnings og skortur sé á vel menntuðu innlendu starfsfólki.

„Námið er vendinám þar sem námsgreinar eru kenndar í lotum. Í náminu eru engir fastir kennslutímar eða stofur. Nemendur eru virkir og kennarar til staðar sem leiðbeinendur í gegnum netið og á föstum viðverutímum. Nemendur leita sér sjálfir þekkingar, vinna saman í hópum og aðstoða hver annan,“ segir Hjálmar en hluti námsins fer fram í fyrirtækjum sem tengjast leikjagerð og skapandi hugsun. Áhersla sé lögð á náin tengsl við atvinnulífið, tölvuleikjaframleiðendur á Íslandi og IGI – samtök leikjaframleiðenda á Íslandi, sem veiti faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins.

Hjálmar segir Samtök verslunar og þjónustu og Samtök iðnaðarins hafa staðið að baki Keili í baráttunni fyrir námsbrautinni sem verið hefur í bígerð í langan tíma. Hann fagnar því að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skuli hafa afgreitt málið en hún sé fjórði menntamálaráðherrann sem að því kemur.