Mér varð nokkuð hverft við þegar ég sá að framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, blandaði undirrituðum inn í sérkennilega samsæriskenningu í Morgunblaðsgrein í gær.
Það hefur kannski farið framhjá Brynjari að ég er sammála honum um aðalatriði málsins, sem sé um framgöngu Seðlabankans, eins og fram kom í þessu innleggi mínu í orðaskiptum um málið um síðustu helgi:
„Það er hægt að rökstyðja ýmsar skoðanir á þessu máli öllu – bæði hvað varðar framgöngu Seðlabankans og RÚV. Sjálfur hef ég mjög ákveðna skoðun á framgöngu Seðlabankans – og það sætir mikilli furðu ef það hefur engar afleiðingar innan bankans að allur málatilbúnaður hans hefur verið dæmdur á sandi byggður. Stendur ekki steinn yfir steini“.
Bendir þetta til þess að ég hafi verið í samsæri með Seðlabankanum?
Ég lýsti hins vegar þeirri skoðun minni, eftir faglega athugun á þeim Kastljóssþætti sem hér um ræðir, að birting á viðtali við Elínu Björgu Ragnarsdóttur fæli ekki í sér fréttafölsun þar sem skýrt hefði verið tekið fram í inngangi að viðtalið hefði verið tekið áður en kunnugt var um rannsókn Seðlabankans á Samherja. Af sjálfu leiðir að þar með gat Elín Björg aldrei verið að vísa til Samherja í viðtalinu. Menn geta svo haft hvaða skoðun sem er á þessum Kastljóssþætti að öðru leyti – ég var bara að tjá mig um þennan afmarkaða þátt málsins.
Ég er ekki viss um að þessi grein Brynjars þjóni þeim málstað sem hann ætlar þó að verja – og við erum reyndar sammála um.
Höfundur er alþingismaður.