Sláttur Hekla Björk Hólmarsdóttir naut sín á kynningunni í Klettaskóla.
Sláttur Hekla Björk Hólmarsdóttir naut sín á kynningunni í Klettaskóla. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að stunda íþróttir er börnum mikilvægt og þroskandi en fötlunar eða annarra ástæðna vegna finna sum sig ekki á hefðbundum æfingum. Þeim hópi er nauðsynlegt að mæta og allir eru velkomnir til okkar,“ segir Hildur Arnar hjá Íþróttafélaginu Ösp.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Að stunda íþróttir er börnum mikilvægt og þroskandi en fötlunar eða annarra ástæðna vegna finna sum sig ekki á hefðbundum æfingum. Þeim hópi er nauðsynlegt að mæta og allir eru velkomnir til okkar,“ segir Hildur Arnar hjá Íþróttafélaginu Ösp. Efnt var til kynningar á vegum félagsins í íþróttahúsi Klettaskóla í Öskjuhlíð í Reykjavík síðastliðinn laugardag þar sem foreldrum og börnum bauðst að prófa sig í ýmsum íþróttagreinum. Í dag taka alls um 180 einstaklingar þátt í starfi félagsins en á þess vegum er hægt að æfa sund, frjálsar íþróttir, keilu, boccia, nútímafimleika, listdans á skautum og fótbolta en til stendur að bæta við fleiri greinum.

Blómstra algjörlega

„Sumir sem æfa með okkur eru með líkamlega fötlun eða þá kannski blindir eða heyrnarlausir. Aðrir kunna svo að vera með greiningar eins og til dæmis AD/HD eða eru á einhverfurófinu. Falla því kannski ekki í hópinn og þurfa stuðning sem góðir þjálfarar okkar geta veitt. Sé líka haldið vel utan um þessa einstaklinga þá blómstra þau algjörlega og geta sum hver þegar fram í sækir tekið þátt í almennu starfi íþróttafélaganna. Að sjá slíkt gerast er mjög ánægjulegt,“ segir Hildur.

Á kynningardeginum voru kynntir styrktarbolir sem Öspin hefur látið gera; alls 750 stykki sem seld eru á 2.500 krónur stykkið. Bolirnir eru áritaðir af íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta, Jóni Margeiri og félögunum Jóa Pé og Króla.

Til tíðinda bar að í Klettaskóla mætti Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, til að veita bol viðtöku, en í tímans rás hefur sambandið verið sterkur bakhjarl Asparinnar. Lagt félaginu lið til dæmis í þjálfaramálum og öðru – og er það stuðningur sem hefur virkilega munað um. Fékk Guðni góðar móttökur, en hann sagði Asparfélögum frá ýmsu áhugaverðu viðvíkjandi fótboltanum.

Margar keppnisferðir

Margt áhugavert er framundan í íþróttastarfi Asparfélaga. Í næsta mánuði fara nokkrir á alþjóðlegt íþróttamót í Abu Dabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá verður bráðlega haldið á alþjóðlegt mót í Malmö í Svíþjóð. Þangað ætlar Öspin með lið bæði í keilu og sundi og sendir einnig fólk á alþjóðleg skautamót í Kanada og Finnlandi.

Hildur Arnar er móðir þeirra Gabríellu og Aniku Árnadætra sem báðar æfa listskauta með Ösp. Þær eru 19 og 17 ára, báðar líkamlega fatlaðar, og því hafa íþróttirnar gert þeim afar gott.

„Stelpurnar byrjuðu að æfa með hefðbundnu íþróttafélagi, sem gekk ekki upp því þær voru á allt öðrum stað en hinir krakkarnir. Í Öspinni hafa þær plumað sig og finnst gaman. Mæta reglulega á æfingar í Egilshöll og fara svo á mót. Keppnisferðir þeirra til útlanda eru orðnar margar og hafa gefið þeim mikið. Sjálfri finnst mér afar gaman að fylgjast með starfinu og vera bakvörður í Öspinni, því allt íþróttastarf byggist upp á því að sjálfboðaliðasveitirnar séu öflugar,“ segir Hildur.