Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
„Málsmeðferð styttist töluvert í kjölfar nýrrar reglugerðar og umsóknum frá þessum ríkjum fækkaði í raun samstundis. Það er því ekki annað hægt en að draga þá ályktun að þessi breyting hafði mikið að segja,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hún í máli sínu til breytinga sem fyrst og fremst miða að því að hraða málsmeðferð tilhæfulausra umsókna um vernd frá ríkisborgurum öruggra upprunaríkja, svokölluð forgangsmeðferð.
Árið 2018 voru umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 800 talsins. Stærstu hópar umsækjenda komu frá Írak, alls 112, og Albaníu, 108. Umsóknum frá ríkisborgurum ríkja á lista yfir örugg upprunaríki fækkaði um tvo þriðju milli ára en umsóknum frá ríkisborgurum annarra ríkja fjölgaði hins vegar um 16% milli áranna 2017 og 2018. Kemur þetta fram í nýjum gögnum sem birt eru á síðu Útlendingastofnunar.
„Meðalmálsmeðferðartími allra umsókna sem afgreiddar voru með ákvörðun á árinu var 156 dagar en mál í forgangsmeðferð voru að jafnaði afgreidd á fimm dögum,“ segir þar, en umsækjendur um alþjóðlega vernd í fyrra voru af 70 þjóðernum. Heildarfjöldinn í fyrra var minni en undanfarin tvö ár, en árið 2017 var hann 1.096 og 2016 sóttu 1.133 um alþjóðlega vernd hér á landi.
Sómalar voru þriðji fjölmennasti hópur umsækjenda, 53, því næst Afganar, 46, og Pakistanar, alls 45.