Baksvið
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis vinnur nú að hlutafjáraukningu og hefur í því skyni nálgast núverandi hluthafa sína. Skv. upplýsingum sem Morgunblaðið hefur undir höndum er stefnt að því að afla fyrirtækinu 7,5 milljóna dollara, jafnvirði ríflega 900 milljóna króna, með útgáfu nýs hlutafjár. Enn sem komið er liggur ekki fyrir á hvaða gengi hið nýja hlutafé verður selt en miðað við nýleg viðskipti með óverulegan hlut í félaginu er heildarvirði fyrirtækisins fyrir hlutafjáraukninguna 9,5 milljarðar króna.
Kerecis var stofnað árið 2009 en það framleiðir sáraumbúðir sem hafa að geyma efni úr þorskroði sem notað er til að hjálpa húð- og líkamsvef að gróa eftir slys, skurðaðgerðir og sjúkdóma af ýmsu tagi. Meðal þeirra sem nýtt hafa sér tækni fyrirtækisins eru sjúklingar sem orðið hafa fyrir vefjamissi eftir brjóstatöku eða krabbameinsmeðferð, sykursýkissjúklingar sem glíma við fótasár vegna sjúkdómsins og ýmsir fleiri.
Samkvæmt bréfi sem Guðmundur Fertrand Sigurjónsson, forstjóri fyrirtækisins, hefur sent núverandi hluthöfum er útgefið hlutafé fyrirtækisins nú tæpar 4,8 milljónir hluta. Í útboðinu sem nú er unnið að verða nýir hlutir ekki seldir á gengi sem nemur lægri fjárhæð en 14 dollurum á hlut. Í fjárfestakynningu er hins vegar bent á, líkt og áður greinir, að hlutir í félaginu hafi nýlega gengið kaupum og sölum á 16,5 dollara á hlut. Verði neðri verðmörkin niðurstaðan verður hlutafé félagsins aukið um 535 þúsund hluti en verði gengið 16,5 dollarar á hlut verður það aukið um 454 þúsund hluti, eða rétt tæplega 10%. Hlutafjáraukningunni er ætlað að stuðla að frekari vexti félagsins á komandi árum, jafnt innri sem ytri vexti. Þannig er upplýst í fyrrnefndu bréfi til hluthafa að Kerecis hafi m.a. augastað á svissnesku fyrirtæki sem stutt gæti við frekari vöxt og að tekið sé tillit til mögulegrar yfirtöku í hlutafjáraukningunni.
Margfaldar söluna milli ára
Á síðustu árum hafa tekjur Kerecis margfaldast. Þannig seldi fyrirtækið vörur fyrir 515 þúsund dollara árið 2016 eða jafnvirði 62 milljóna króna. Ári síðar var salan meira en þrefalt meiri og nam 1,7 milljónum dollara, jafnvirði 205 milljóna króna. Í fyrra margaldaðist salan einnig og nam 4,6 milljónum dollara, jafnvirði tæplega 554 milljóna króna. Viðskiptaáætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að salan nemi svo 13,5 milljónum dollara í ár, jafnvirði ríflega 1,6 milljarða króna. Þá segir í fyrrnefndu bréfi til hluthafa að á næsta ári sé stefnt að því að þrefalda söluna frá árinu í ár þannig að hún nemi þá allt að 40 milljónum dollara, jafnvirði 4,8 milljarða króna.