Ágústa Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 2. janúar 1929. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 17. desember 2018.
Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Einarsson, f. 28. september 1893, d. 3. maí 1973, og Ingveldur Einarsdóttir, f. 10. ágúst 1889, d. 19. nóvember 1966.
Systkini Ágústu eru Sigrún, f. 1916, d. 2003, Einar Eiríkur, f. 1917, d. 1985, Vilborg, f. 1919, d. 2015, Ingólfur, f. 1921, d. 1966, Gunnar, f. fæddur 1923, Ragnar, f. 1925, d. 1995, Anna Marta, f. 1926, d. 2016, Ólafur Kjartan, f. 1927, d. 2012, og Jón Abraham, f. 1931, d. 1986.
Ágústa kvæntist Haraldi Sigurjónssyni sjómanni 5. september 1953. Hann var fæddur 6. apríl 1921 en lést 1. mars 2006. Börn Ágústu og Haraldar eru: 1) Ingveldur hjúkrunarfræðingur, f. 24. nóvember 1953, maki Benedikt Skarphéðinsson, f. 8. janúar 1949. Fyrrverandi maki Ingveldar er Guðni Friðrik Gunnarson, þeirra börn eru: a) Haraldur, f. 29. maí 1975, b) Guðný Stella, f. 11. nóvember 1979, maki Helgi Guðmundsson, þau eiga tvo syni. c) Ágúst Ingi, f. 22. október 1992. 2) Sigurjón Ingi viðskiptafræðingur, f. 2. mars 1955, maki Margrét Hinriksdóttir, f. 30. desember 1956. Börn þeirra eru: a) Guðrún, f. 11. mars 1977, maki Jón Arnar Guðmundsson, þau eiga tvo syni, b) Ágústa, f. 30. október 1981, maki Skúli Björn Jónsson, þau eiga þrjú börn, c) Einar Örn, f. 15. október 1989, maki Stella Stefánsdóttir, þau eiga eina dóttur. 3) Ólafur viðskiptafræðingur, f. 14. ágúst 1958, maki Viglín Óskarsdóttir, f. 30. ágúst 1966, þeirra synir eru Óskar Rafn, f. 12. mars 2005 og Baldur Örn, f. 21. júní 2008. Fyrrverandi maki Ólafs er Dóra Soffía Þorláksdóttir, þeirra börn eru: a) Sævar, f. 30. september 1983, b) Sigrún Erla, f. 31. ágúst 1987, maki Albert Hauksson, þau eiga þrjú börn, c) Elísabet, f. 29. maí 1993, maki Einar Helgason, þau eiga von á sínu fyrsta barni nú í lok janúar. 4) Hjördís framkvæmdastjóri, f. 4. nóvember 1959, maki Gísli Sigurðsson, f. 18. júlí 1952. Fyrrverandi maki Hjördísar er Sigurjón Héðinsson, þeirra börn eru: a) Héðinn, f. 22. nóvember 1984, maki Dagný Pétursdóttir, þau eiga þrjú börn. b) Haraldur, f. 28. júlí 1987, maki Chomyong Yongngam, þau eiga eina dóttur. c) Ásdís, f. 10. júlí 1991, maki Grímur Steinn Karlsson, þau eiga tvö börn.
Ágústa ólst upp í Reykjavík og lauk gagnfræðiprófi frá Ingimarsskóla en auk þess lauk hún prófi frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Ágústa var heimavinnandi á meðan börnin voru lítil, þar sem eiginmaður hennar var mikið fjarverandi vegna vinnu sinnar. Eftir að börnin stækkuðu fór hún að vinna aðra vinnu með heimilisstörfum, fyrst við ræstingar og barnapössun en síðar hjá Pósti og síma um árabil.
Útför Ágústu fór fram 21. janúar 2019.
Á næstum hverjum laugardegi í meira en 20 ár hittumst við heima hjá ömmu Gústu og Halla afa í Eyjabakkanum, fjögur börn, makar, 14 barnabörn, makar, barnabörn, vinir barna og barnabarna, gæludýr og bara allir sem vildu koma. Við urðum náin fjölskylda sem hefur staðið vel saman í gegnum árin. Barnabörnin hafa haldið góðu sambandi og hist við tækifæri í ýmsum löndum. Þegar við urðum eldri sáum við hvað það er mikilvægt að eiga hvort annað. Þessa nánd þökkum við ömmu Gústu og Halla afa fyrir.
Amma var afar hjartahlý og að mörgu leyti víðsýn kona sem var á undan sínum tíma. Hún lærði erlend tungumál á fullorðins aldri og þau hjónin ferðuðust víða. Hún talaði við okkur barnabörnin um umburðarlyndi og átti samkynhneigðan vin á unga aldri sem hún tók opnum örmum. Hún fylgdist ævinlega með öllu sem barnabörnin tóku sér fyrir hendur og studdi okkur.
Við höfum stundum grínast með að við hefðum getað mætt með grænan hanakamb í heimsókn og hún hefði bara sagt „mikið er þetta fínt hjá þér, elskan“.
Við gistum margar nætur í Eyjabakkanum og fórum í sund og göngutúra í Indíánagil og fengum maltbrauð, með osti, sem búið var að skera skorpuna af. Við fengum ógrynni af ást og umhyggju.
Hvíl í friði, elsku amma.
Þín barnabörn
Haraldur, Guðný Stella
og Ágúst Ingi.
Það er dýrmætt að horfa til baka og rifja upp allar góðu minningarnar tengdar ömmu og afa. Heimili þeirra, Eyjabakki 26, var alltaf opið og börn, barnabörn, makar og vinir voru ávallt velkomin. Á hverjum laugardegi mætti stórfjölskyldan í heimsókn til ömmu Gústu og Halla afa og nutum við svo sannarlega að vera í kringum þau.
Það er okkur öllum ómetanlegt að hafa í öll þessi ár átt þessa miklu og góðu samveru. Ísskápurinn þeirra var aldrei tómur þegar við mættum og fengum við kók í gleri, kaffi, ísblóm, daim-ís, maltbrauð og ekki má gleyma pönnukökunum góðu.
Sjónvarpið var oftast í gangi og öll dagblöðin í boði til að lesa. Amma spáði í bolla og strax og aldur gafst til fékk maður að setja sinn bolla á ofninn. Ávallt sá hún fram á bjarta tíma, ást, ferðalög og lottóvinninga þegar hún spáði fyrir okkur barnabörnunum og hló við með sínum smitandi hlátri. Þegar við gistum hjá þeim var oft farið í sund og göngutúr í Indíánagil þar sem búið var til ævintýri og allir fengu tækifæri til að vera fararstjórar með þar til gerð prik.
Það var ávallt líf og fjör að koma til þeirra og við upplifðum mikla gleði, hlýju, öryggi og ást á heimili þeirra. Hún og afi höfðu mjög gaman af ferðalögum og ferðuðust víða og fylltu töskurnar af gjöfum til okkar allra.
Við minnumst jólanna með þeim af mikilli hlýju. Alltaf voru fullir dunkar af hálfmánum og vanilluhringjum í laginu eins og upphafsstafir barna þeirra. Á jólunum fengu öll barnabörnin tvær gjafir, eina á aðfangadag og eina á jóladag sem var ávallt mikið tilhlökkunarefni. Á jóladag kom öll stórfjölskyldan saman á heimili þeirra þar sem boðið var upp á léttreyktan lambahrygg með öllu tilheyrandi sem ávallt verður hluti af okkar jólum.
Amma var kraftmikil og lífsglöð, hún var ávallt glöð að sjá okkur og þá sem okkur fylgdu hverju sinni. Hún gat talað hratt og mikið, var söngelsk og hafði gaman af dansi. Hún var traust kona og stóð eins og klettur með sínu fólki eða hópnum sínum eins og hún kallaði okkur þegar afi var veikur. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur, passaði okkur oft og sama á hvaða aldri við vorum, hvort sem við vorum erfiðir unglingar eða lítil börn, þá tók hún okkur alltaf opnum örmum. Hún elskaði okkur skilyrðislaust og fyrir það verðum við ævinlega þakklát.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem)
Sigurjón, Margrét, Guðrún, Ágústa, Einar Örn og fjölskyldur.
Við systkinin erum hluti af stórum barnabarnahópi, heil fjórtán stykki. Ómetanlegt er að amma og afi sáu til þess að við fundum aldrei fyrir því hversu mörgum þau höfðu að sinna. Okkur barnabörnunum leið eins og við værum öll einstök í þeirra augum.
Þegar flensur bar að garði komu amma og afi oftar en ekki til aðstoðar og fengum við að vera hjá þeim á meðan foreldrar okkar fóru til vinnu. Einnig vorum við svo lánsöm að fá að gista hjá þeim og eyða með þeim gæðastundum í einrúmi þar sem amma Gústa dekraði okkur í mat og umhyggju. Við fengum að gista uppi í og sofnuðum út frá sögum um grísina þrjá og Guttavísur. Góðar minningar lifa af sólríkum dögum á svölunum í Eyjabakka, leikvöllunum í Bakkahverfinu og göngutúrum í Elliðaárdal þar sem spjallað var um alla heima og geima.
Þegar á unglingsárin kom vorum við loks orðin nógu gömul til þess að amma væri tilbúin til þess að spá fyrir okkur í bolla og spil í eldhúsinu. Á viðkvæmum unglingsárum dæmdi amma okkur aldrei fyrir nýstárlegt útlit eða fataval heldur spurði einfaldlega „já, er þetta móðins í dag?“ Hún var stríðin og forvitin og spurði stundum „ertu nokkuð komin með vin?“ eða „varstu að skralla í gær?“ Fyrir allar þessar stundir erum við einstaklega þakklát í dag.
Þegar Halli afi féll frá fór hægt og rólega að að bera á veikindum ömmu. Þær stundir sem við fengum með henni eftir að hún veiktist voru þó einnig góðar. Þrátt fyrir að veikindin hafi tekið þungt á fjölskylduna, lifði áfram hennar ljúfa, bjarta sál, húmorinn og einlægur áhugi á náunganum. Fyrir það erum við þakklát.
Amma var mikil og sterk ættmóðir. Hún var sjálf ein af tíu manna systkinahópi og var henni umhugað um að fjölskyldan væri samstiga og hélt hún alltaf vel utan um hana. Við minnumst hennar góðu nærveru og þökkum fyrir allar samverustundirnar.
Sævar, Sigrún Erla og Elísabet Ólafsbörn.