Stjórnmál Mikill skóli að sitja á Alþingi, segir Haraldur Benediktsson.
Stjórnmál Mikill skóli að sitja á Alþingi, segir Haraldur Benediktsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Þegar ég hef tímann fyrir mér finnst mér gott að byrja daginn á fjósverkunum; mjólka og gefa kúnum.

Þegar ég hef tímann fyrir mér finnst mér gott að byrja daginn á fjósverkunum; mjólka og gefa kúnum. Núna þegar þingstörfin eru byrjuð þarf ég að vera kominn í bítið til Reykjavíkur og legg því snemma af stað til að vera á undan morgunumferðinni; lestinni sem nær stundum frá Mosfellsbæ og niður fyrir Ártúnsbrekku,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er 53ja ára í dag. Haraldur býr á Vestri-Reyni við Akrafjall og rekur þar bú með fjölskyldu sinni. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á búskap og þannig meðal annars leiddist ég út í félagsmálin og svo hvað af öðru,“ segir Haraldur sem um árabil var formaður Bændasamtaka Íslands. Hann var kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2013 og hefur allan þann tíma setið í fjárlaganefnd.

„Að sitja í fjárlaganefnd gefur manni einstök tækifæri til að sjá og kynnast hinum aðskiljanlegustu málum og aðstæðum. Eðlilega breytist lífssýn manns við slíkt og gerir mann væntanlega víðsýnni. Að eiga sæti á Alþingi er líka mikill skóli en það sem mér finnst annars standa uppúr er sú góða vinátta sem er milli fólks, þvert á flokka. Fólk kann að aðskilja pólitíkina og hið persónulega sem í félagsmálum er lykill að árangri,“ segir Haraldur. Hann er kvæntur Lilju Guðrúnu Eyþórsdóttur og eiga þau þrjú börn; Benediktu 23ja ára, Eyþór 18 ára og yngst er Guðbjörg 11 ára.

„Í gamla daga tók ég þátt í leiklistarstarfi og hafði gaman af,“ segir Haraldur spurður um áhugamálin. „Jú, og svo hef ég gaman af traktorum og vélum og fleiru slíku viðvíkjandi sveitinni. Þar hangir líka á spýtunni að hafa áhuga á sögu, landafræði og örnefnum eins og oft gerist með aldrinum.“ sbs@mbl.is