Arnar Þór Ingólfsson Ómar Friðriksson Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði leggur m.a.

Arnar Þór Ingólfsson

Ómar Friðriksson

Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði leggur m.a. til að fjölgað verði hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága, að uppbygging almenna íbúðakerfisins haldi áfram og unnið verði að uppbyggingu óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga að norrænni fyrirmynd.

Þá verði leiguvernd aukin með sértækum aðgerðum, aðgengi að upplýsingum um húsnæðismál verði bætt og þess gætt að uppbygging samgöngumannvirkja og almenningssamgangna fylgi mikilli uppbyggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu og vaxtarsvæðum í kringum borgina.

Í átakshópnum, sem starfað hefur frá 5. desember, áttu sæti fulltrúar ríkisins, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Sjö undirhópar störfuðu með hópnum sem kynnti í gær 40 tillögur um aðgerðir.

Að mati hópsins liggur óuppfyllt íbúðaþörf nú á bilinu fimm til átta þúsund íbúðir á landinu öllu. Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er hins vegar fyrirhuguð á næstu árum og áætlað er að um tíu þúsund íbúðir verði byggðar á árum 2019-2021. Gangi þær áætlanir eftir muni óuppfyllt íbúðaþörf minnka til muna en hún verði engu að síður um tvö þúsund íbúðir í upphafi árs 2022.

Hópurinn bendir á að þrátt fyrir mikla uppbyggingu séu vísbendingar um að það framboð sem nú er að myndast muni síður henta tekju- og eignalágum. „Stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu er í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst. Í þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fermetraverð er lægra virðist mest vera byggt af stærri íbúðum sem geta þar með síður talist hagkvæmar. Því er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði til leigu og eignar,“ segir í kynningu á niðurstöðunum.

Fram kemur í skýrslunni að mikill samhljómur var í hópnum um nauðsyn þess að leysa vandann á húsnæðismarkaði og mikilvægi þess fyrir yfirstandandi kjaraviðræður. Samkvæmt heimildum innan launþegahreyfingarinnar í gær virðast tillögurnar almennt mælast vel fyrir en helst er fundið að því að ekki er útfært hvernig fjármagna eigi einstakar aðgerðir. Þá þyki einkennilegt að samhliða er að störfum annar ráðherraskipaður starfshópur sem er að útfæra aðgerðir til að auðvelda ungu tekjulágu fólki að kaupa sér fyrsta íbúðarhúsnæði. Aðilar vinnumarkaðarins komi ekki að þeirri vinnu.

Bæta í stofnframlögin

Meðal tillagna átakshópsins varðandi uppbyggingu almennra íbúða er að ríki og sveitarfélög auki fjárveitingu í stofnframlög á næstu árum. Tekjumörk inn í almenna íbúðakerfið verði endurskoðuð og taki mið af tveimur neðstu tekjufimmtungunum og til komi aukning stofnframlaga þannig að þetta dragi ekki úr uppbyggingu vegna tekjulægsta fimmtungsins.

Fjármagnskostnaður stofnframlagshafa verði lækkaður til að tryggja framgang almenna

íbúðakerfisins og lagður er til aukinn stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög m.a. með því að leitað verði eftir samstarfi stéttarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og lífeyrissjóða um fjármögnun leigufélagsins Blæs, sem ASÍ og BSRB stofnuðu í þessum tilgangi.

Gert verði ráð fyrir að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög verði hluti af uppbyggingu húsnæðismarkaðar á næstu árum og að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög taki þátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á margvíslegan

hátt. Þau geti m.a. komið að uppbyggingu íbúða sem henta úrræðum stjórnvalda um sértækar aðgerðir til að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði.

Meðal tillagna um leiguvernd er að ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda t.d. um ákvörðun leigufjárhæðar í upphafi leigu og heimildir til breytinga á henni á leigutíma, lengd og uppsögn leigusamninga, og möguleg viðurlög við brotum.

Gæta þarf að því skv. tillögum hópsins að breytingar á húsaleigulögum hækki ekki leiguverð eða dragi úr framboði á leigumarkaði og að sveigjanleiki í útleigu á hluta húsnæðis verði aukinn.