Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis, sem framleiðir sáraumbúðir úr fiskroði, vinnur nú að hlutafjáraukningu og hyggst sækja 7,5 milljónir dollara, jafnvirði 900 milljóna króna, til þess að styðja við frekari vöxt þess á komandi misserum. Í bréfi sem stofnandi og forstjóri fyrirtækisins hefur sent hluthöfum og Morgunblaðið hefur undir höndum kemur fram að heildarvirði félagsins sé allt að 9,5 milljarðar króna, miðað við nýleg viðskipti með hluti í því.

Tekjur fyrirtækisins hafa aukist mikið á undanförnum árum. Þannig gera áætlanir þess ráð fyrir að tekjurnar verði allt að 40 milljónir dollara, jafnvirði 4,8 milljarða króna, á næsta ári. Gangi þær spár eftir hefur salan áttfaldast frá árinu 2016. Meðal hluthafa í Kerecis eru félögin BBL 34 ehf., sem er að stórum hluta í eigu Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, stofnanda og forstjóra félagsins, og Baldvins Björns Haraldssonar, tryggingafélagið VÍS og 1924 ehf. sem er í eigu Marinós Marinóssonar.

Stofnað 2009
» Kerecis var stofnað fyrir áratug á Ísafirði.
» Skrifstofur fyrirtækisins eru þar í bæ, í Reykjavík og í Arlington í Virginíuríki í Bandaríkjunum.