Hulda Árnadóttir fæddist 3. október 1934 á Akureyri og ólst þar upp. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 7. janúar 2019.
Faðir hennar var Árni Ólafsson sýsluskrifari, síðar bóndi á Kjarna á Galmaströnd og skrifstofumaður hjá Rafveitu Akureyrar, f. 26. maí 1897, d. 19. desember 1946. Föðurforeldrar: Ólafur Tryggvi Jónsson, bóndi og kennari í Dagverðartungu í Hörgárdal í Skriðuhreppi í Eyjafirði, f. 30. ágúst 1848, d. 17. júní 1922, og k.h. Anna Margrét Jónsdóttir húsfreyja, f. 8. desember 1858, d. 5. nóvember 1905. Móðir Huldu var Valgerður Rósinkarsdóttir, húsfreyja á Kjarna og Akureyri, f. 24. mars 1903, d. 30. ágúst 1979. Móðurforeldrar: Rósinkar Guðmundsson, bátsformaður í Æðey á Ísafjarðardjúpi, síðar bóndi á Kjarna á Galmaströnd í Arnarneshreppi í Eyjafirði, f. 27. apríl 1875, d. 17. desember 1948, og fyrri k.h. Þorgerður Septína Sigurðardóttir, húsfreyja, f. 14. september 1866, d. 29. desember 1920. Systkini Huldu voru Anna kaupmaður, f. 3. mars 1924, d. 22, september 2009, Guðmundur læknir, f. 28. nóvember 1925, d. 19. október 1983, og Þorgerður Septína, húsmóðir og myndlistarkona, f. 8. maí 1928, d. 3. maí 2002, Ólafur f. 16. febrúar 1930, lést þriggja vikna.
Hulda giftist Finni Torfa Hjörleifssyni, síðast dómstjóra í Borgarnesi, f. 7. nóvember 1936, og hófu þau búskap í Reykjavík árið 1957. Foreldrar hans voru Gunnjóna Sigrún Jónsdóttir frá Ytri-Veðrará í Önundarfirði, f. 7.9. 1899, d. 9.9. 1974, og Hjörleifur Guðmundsson frá Görðum á Hvilftarströnd, f. 1.10. 1896, d. 12.11. 1984. Þau slitu samvistum árið 1963. Hulda og Finnur Torfi eignuðust tvo syni: 1) Árni, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, f. 28.3. 1958, kvæntur Hrafnhildi Arnkelsdóttur, sviðsstjóra hjá Hagstofu Íslands, f. 7. maí 1961. Dætur þeirra eru Karitas Sumati, aðstoðarforstöðukona í frístundamiðstöðinni Tjörninni, f. 26. september 1994, og Lára Debaruna, nemi við Menntaskólann í Reykjavík, f. 28. mars 2000. 2) Magnús Einar, tæknifræðingur hjá Norðurorku, f. 21.7. 1959, d. 13. febrúar 2005. Hann var kvæntur Jóhönnu Erlu Birgisdóttur, teymisstjóra heimaþjónustu hjá Reykjavíkurborg, f. 26.5. 1963. Börn þeirra eru Arnaldur Birgir, tæknifræðingur hjá Norðurorku, f. 2. nóvember 1980. Sambýliskona hans er Anna Árnadóttir sérfræðingur hjá Fiskistofu, f. 10. nóvember 1982 og eru dætur þeirra Aldís Ósk, f. 23. janúar 2010, og Árný Helga, f. 2. mars 2012. Andri Freyr, vélfræðingur hjá Öryggismiðstöðinni, f. 3. júlí 1984. Sambýliskona hans er Inga Kristín Sigurgeirsdóttir, tanntæknir hjá Tannbjörg, f. 1. september 1987. Sigrún María Magnúsdóttir, leikskólakennari á leikskólanum Hvammi, f. 21. janúar 1986.
Fyrstu starfsárin, með námi, vann Hulda á símstöðinni á Akureyri. Hún nam handavinnu við Kennaraskólann 1957-1959. Hún kenndi handavinnu á Akureyri frá árinu 1963 til 1986, lengst af við Barnaskóla Akureyrar.
Útför Huldu fór fram í kyrrþey.
Hulda frænka mín hefur kvatt þennan heim á sinn hljóðláta og hæverska hátt. Hún, sem venjulega var glöð í sinni og hláturmild, var búin að missa lífsorkuna og varð þögulli eftir því sem mánuðirnir liðu. Þó er ekki lengra síðan en á afmælinu hennar, 3. október sl., er við sátum hjá henni og bulluðum einhver ósköp, systurdætur hennar og undirrituð, að hún spaugaði með okkur og hló innilega. Þannig hafði ég kynnst henni, létt í lund, opin fyrir kímni og óstjórnlega hláturmild og þannig vil ég muna hana því það er sterki þráðurinn í vináttu okkar.
Fyrsta sterka minningin mín um Huldu er frá því að hún lá á Landspítalanum eftir erfiða mjaðmaraðgerð þar sem hún var á stórri stofu með fullorðnum konum og hennar rúm auðvitað á miðju gólfi því börn áttu ekki að taka pláss frá fullorðnum. Mér er þetta sérstaklega minnisstætt því hún hvíslaði þegar maður kom í heimsókn, var svo feimin og vildi ekki trufla með því að tala upphátt. Þó allir væru góðir og heimsóknir margar leið henni ekki vel því hún saknaði svo mömmu sinnar sem ekki hafði tök á að vera lengi sunnanlands, en Hulda þurfti að vera í marga mánuði í einu og aftur og aftur sem reyndi mikið á hana. Ég tel fyrir víst að handavinnan sem hún gerði þarna strax frá byrjun hafi bjargað hennar andlegu heilsu. Og þvílík handavinna, hvert einasta nálspor eins og höggvið í efniviðinn og það eftir 8-9 ára barn. Þarna hófst hennar frábæri handavinnuferill sem spannaði allar tegundir af útsaumi ásamt prjóni og hekli og varð undirstaða fyrir handavinnukennaranámið. Hef lengi sagt að þessi fallega handavinna ætti heima á safni.
Loks fékk ég að fara ein í heimsókn til Akureyrar til Árna og Gerðu, þá níu ára gömul, til að vera með Huldu yfir hásumarið. Allt var framandi og ævintýri líkast. Við fórum nokkrum sinnum vestur í Hörgárdal á hina ýmsu bæi, við fórum í heyskap fyrir ofan Akureyri og sátum á heyvagninum og farið var í lautarferðir í Lystigarðinn. Vinir pabba áttu bíla og ekki stóð á boðum fram allan Eyjafjörð og margt fleira. Það var semsagt dekrað við okkur og geymdum við Hulda þetta sumar í huga okkar sem fjársjóð.
Ferðir hennar til okkar voru oftast tengdar sjúkrahúsinnlögnum en alltaf fundu foreldrar mínir stundir til að ferðast með okkur um Suðurlandið.
Hulda mín fékk að kynnast því að ekki er alltaf sólskin. Skilnaður, margs konar veikindi, slys og ótímabært andlát yngri sonar hennar litaði tilveruna. En dökkum dögum fylgja ljósir og Huldu tókst að komast yfir torfærurnar smátt og smátt. Hún var afburða gestrisin og gaman var að setjast með henni og spjalla og hlæja. Á efri árum bauðst henni húsnæði á Grund. Hún fékk fallegt herbergi með svölum og sjávarútsýni og var hún í nábýli við Árna son sinn og hans fjölskyldu. Henni leið mjög vel þar og dásamaði starfsfólkið.
Hulda mín var orðin þreytt og fannst ekki lengur gaman að skreppa í ístúr. Henni fannst bara best að liggja og sofa og þannig sigldi hún á fund ættingja sinna.
Bestu þakkir fyrir allar gleðistundirnar. Hvíl í friði, elsku frænka.
Hertha W. Jónsdóttir.
Margrét Jónsdóttir.
Valgerður Katrín Jónsdóttir (Systa).