Svanur Arnar Jóhannsson fæddist 15. júní 1935 í Djúpuvík. Hann lést á öldrunarheimilinu Skjóli 13. janúar 2019.

Foreldrar hans voru Jóhann Ingibjartur Guðbjartsson, f. 20.6. 1907 á Flateyri, d. 4.8. 1998, og kona hans Guðrún Guðbjarnadóttir, f. 7.4. 1911 að Jafnaskarði í Borgarfirði, d. 24.12. 2000. Systkini Svans eru Anna, f. 13.10. 1937, Guðbjarni, f. 1.12. 1942, d. 11.1. 2010, Guðbjartur, f. 12.1. 1946, d. 26.10. 1949, Þorsteinn f. 2.7. 1952. Svanur var ókvæntur og barnlaus. Svanur lauk prófi frá Farmannadeild Stýrimannaskólans og starfaði sem stýrimaður og skipstjóri allan sinn feril þar til hann kom í land.

Útför Svans fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 23. janúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Farinn er frændi minn hann Svanur. Honum sem mér þótti svo mikið til koma. Fyrir lítinn strák í afskekktum firði, þar sem allir þekkja alla, var framandi og spennandi að eiga frænda sem sigldi um heimsins höf – í orðsins fyllstu merkingu. Frænda sem kom í heimsókn vestur á Flateyri hlaðinn nýlendugóssi og sögum sem lítil eyru meðtóku sem heilagan sannleik. Dót frá Ameríku sem svo sannarlega fékkst ekki í kaupfélaginu eða sögur af fílum uppi á dekki sem gætu bitið í hausinn á manni ef maður færi ekki varlega.

Í barnæskuljómanum sá ég Svan frænda alltaf fyrir mér líkt og pabba Línu Langsokks, sem skipstjóra og kóng í Suðurhöfum. Eftir að ég verð eldri finnst mér hann minna meira á Línu sjálfa, maður sem fór eigin leiðir og hulinn dulúð á margan hátt. Svanur var frændrækinn og góður heim að sækja. Hvergi var huggulegra að drekka kaffi með rjóma en við eldhúsborðið á Kleppsveginum og argast út í pólitík, innlenda sem erlenda, eða ensku deildina sem ég hef engan skilning á. (Lærði nokkur nöfn bara til að þykjast vera með.) Svanur hellti upp á svo rótsterkt kaffi að það ískraði í maganum eftir hverja heimsókn. Ugglaust hefur hann tekið upp sið ítölsku bátsverjana sem fengu sér espresso í morgunmat og borðuðu ekki fyrr en á hádegi. Fyrir mann sem hafði gætt sér á mat um allan heiminn þótti honum ekkert betra en soðin ýsa, skata eða lambakjöt. Það var alltaf tilhlökkunarefni að koma í móttöku kvöldverð hjá honum við hverja heimsókn til Íslands og gæða sér á lambasteik. Hann var heimsborgari mikill, lærði t.d. dönsku í einum túr með danskri áhöfn og þegar hann heimsótti mig í Kaupmannahöfn kom í ljós að hann þekkti bæinn mun betur en ég nokkurn tímann.

Svanur hafði margar sögur að segja sem gaman var að, á tímabili kunni ég allar kjaftasögur á Flateyri frá 1950 þó ég kynni ekki deili á því fólki sem við átti. Og hafandi verið skipstjóri og einstæður þá var hann ekki vanur að taka við skipunum frá öðrum eða gera málamiðlanir. Ef honum þótti saga frá mér leiðinleg skammaðist hann sín ekkert fyrir að skipta um umræðuefni, helst þá eitthvað sem honum þótti áhugavert.

Ég minnist hans með hlýju og eftirsjá. Ég mun sakna þess að koma á Kleppsveginn og taka stöðuna með honum. Ég er þakklátur fyrir góðmennsku og gjafmildi hans. Fallega brosið og augun sem minntu á ömmu Guðrúnu. Þétt og sterkt handtakið en faðmlögin voru alltaf best. Hvíl í friði, frændi.

Arnór Brynjar Þorsteinsson.

Svanurinn er floginn á braut. Fullt af góðum minningum og maður minn, ég gæti baðað mig í öllu ilmvatninu sem hann hefur gaukað að mér gegnum árin. Öll símtölin. Alltaf hringt að kveðja á meðan hann sigldi erlendis. Svo kom hann í land og þá var hringt nánast daglega til þess að spjalla. „Ertu búinn að sjá Moggann í dag?“ Þannig byrjuðu símtölin oft. Já, við tókum oft pólitískan snúning í símanum. Samskipti okkar Svans urðu meiri og nánari eftir 2004 þegar bróðir hans fór að vinna í Reykjavík. Þá skrapp ég oft suður að kíkja á þá báða. Þegar ég greindist með krabbamein snerti það ekki síður Svan en bróður hans. Horfa saman á sjónvarpið yfir spjalli og góðum kaffibolla á kvöldin, Svanur gerði ekki tevatn, heldur sterkt og gott kaffi. Og svo iðulega ávextir með ís eða rjóma er leið á kvöldið. Svanur var heimsborgari, hafði farið víða, naut þess að ferðast, borða góðan mat, drekka góð vín og reykja stóra vindla. Þýddi lítið að bjóða viskí í vatnsglasi, það var slys. Síðustu tvö ár voru honum sérlega erfið vegna heilsuleysis. Reyndum við bróðir hans að hjálpa eins og mögulegt var og hann óskaði eftir. Heyrnin fór alveg í nokkra mánuði en kom svo smá aftur og sjónin varð mjög slæm. Þá var sárt að vita að kollurinn var í lagi en Svanur eins og fangi í eigin líkama, bundinn við hjólastól. Frosinn fastur eins og svanirnir á tjörninni. En nú er Svanur floginn á betri stað. Hvíl í friði, vinur.

Þín mágkona,

Gunnhildur J.

Brynjólfsdóttir.