Þorrablót Kristjana Björnsdóttir sér um flatkökurnar fyrir laugardaginn.
Þorrablót Kristjana Björnsdóttir sér um flatkökurnar fyrir laugardaginn. — Ljósmynd/Jón Helgason
Þorrinn byrjar á föstudag og undirbúningur þorrablóta víða um land stendur sem hæst. Á Borgarfirði eystra er bóndadagur upphaf nýs árs. „Hér tölum við um fyrir og eftir þorrablót og annállinn miðast við það,“ segir Kristjana Björnsdóttir, formaður þorrablótsnefndar.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þorrinn byrjar á föstudag og undirbúningur þorrablóta víða um land stendur sem hæst. Á Borgarfirði eystra er bóndadagur upphaf nýs árs. „Hér tölum við um fyrir og eftir þorrablót og annállinn miðast við það,“ segir Kristjana Björnsdóttir, formaður þorrablótsnefndar.

Borgfirðingar eystra hafa haldið þorrablót árlega frá 1946. Fjórar nefndir skiptast á um að skipuleggja blótin, sjá um mat og drykk sem og skemmtiatriði. Í nefnd Kristjönu eru 20 manns. „Nefndin okkar er mjög vel mönnuð, við fengum til liðs við okkur ungt fólk, sem býr á Egilsstöðum, og það er frábær viðbót,“ segir hún. „Það telur ekki eftir sér að keyra um 70 kílómetra aðra leiðina til þess að aðstoða okkur og þetta léttir mjög á okkur, þessum gömlu.“

Þorrablótið frekar en Kanarí

Um 100 manns eru með lögheimili á Borgarfirði og um 80 með fasta búsetu en um 200 manns sækja blótið. „Hvert þorrablót er með sitt þema,“ segir Kristjana og vísar til viðburða frá síðasta bóndadegi. Skipulögð dagskrá taki um tvo tíma og allt efni sé samið af heimamönnum, meðal annars vísur, sem ortar hafi verið um nefndarmenn blótsins hverju sinni frá 1955.

Á meðal gesta í ár eru hjón sem eiga heima í Noregi. Konan er frá Borgarfirði eystra en maðurinn norskur. „Þegar þau komu síðast stóð valið á milli þess að koma hingað eða fara í sólina á Kanarí og Norðmaðurinn valdi þorrablótið okkar,“ segir Kristjana. Hún bætir við að brott fluttir séu yfirleitt í meirihluta og alltaf einhverjir sem komi á þorrablótið af höfuðborgarsvæðinu. „Nokkrum Íslendingum finnst jafnlangt að fara frá Reykjavík til Borgarfjarðar eystra eins og frá Borgarfirði til Reykjavíkur.“

Veður hefur ekki sett strik í reikninginn undanfarin ár en það hefur ekki alltaf verið svo. „Einu sinni byrjaði blótið ekki fyrr en klukkan tíu því gestirnir sátu fastir með matinn og vínið uppi á Vatnsskarði,“ rifjar Kristjana upp. „Þá var maðurinn minn snjóruðningsmaður á ýtu og ruddi leiðina, mætti svo á blótið en þegar ballið var hálfnað fór hann til þess að byrja að moka aftur.“

Kristjana leggur áherslu á að Vegagerðin hafi alltaf verið ákaflega hliðholl heimamönnum, haldið veginum opnum og skafið aftur um þorrablótsnóttina hafi þess verið þörf. „Við tölum yfirleitt vel um Vegagerðina hér þó að það sé kannski ekki til siðs á Íslandi.“

Þorrablótið er helsta skemmtunin á Borgarfirði eystra ár hvert. „Þetta er stóra árshátíðin okkar og hér er það til siðs að dansa fram undir morgun á blótinu,“ segir Kristjana. Bætir við að áratugahefð sé fyrir því að hljómsveitin Nefndin spili fyrir dansi á ballinu. „Það er vandfundin betri danshljómsveit,“ segir Kristjana.