Heimavellir, stærsta leigufélag landsins, hefur verið að endurskipuleggja eignasafnið sitt en á síðasta ári seldi félagið alls 210 íbúðir fyrir 6,2 milljarða króna. Þar af var eignasala á fjórða ársfjórðungi 2,9 milljarðar króna.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu Heimavalla til Kauphallarinnar í gær. Þar segir m.a. að eitt af forgangsverkefnum félagsins sé endurskipulagning á eignasafninu. Áhersla hafi verið á að selja stakar eignir og einingar sem falla ekki að stefnu félagsins, eins og markaðsaðilum hafi verið kynnt í nóvember sl.
Heildareignasala Heimavalla á árunum 2018 til 2020 er ráðgerð um 17 milljarðar króna en á móti hyggst félagið bæta við sig nýjum hagkvæmum eignum, eins og það er orðað í tilkynningu til Kauphallar í gær.
122 íbúðir seldar á Ásbrú
Einn liður þessa verkefnis er endurskipulagning eignasafnsins á Ásbrú og hefur félagið ákveðið að selja níu fjölbýlishús á Ásbrú sem tilheyra svokölluðu 900 hverfi. Um er að ræða 122 íbúðir sem eru að meðaltali 155 fm að stærð og 32 stúdíóíbúðir sem eru ríflega 40 fm hver. Eftir sölu þessa eignasafns mun félagið eiga og reka 583 íbúðir á Ásbrú og er meðalstærð þeirra 98 fm.Heimavellir hafa gert samkomulag við fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans um sölu eignasafnsins.
Félagið varð til árið 2015 með samruna þriggja leigufélaga á húsnæðismarkaði. Meðal eigenda eru lífeyrissjóðir, tryggingafélög, eigendur Stálskipa og ýmsir fleiri fagfjárfestar. Heimavellir voru skráðir á hlutabréfamarkað sl. vor.