Breiðholtskirkja Alþjóðlegi söfnuðurinn er starf fyrir innflytjendur.
Breiðholtskirkja Alþjóðlegi söfnuðurinn er starf fyrir innflytjendur. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Breiðholt verður eitt prestakall með þremur sóknum verði breytingartillaga þess efnis samþykkt á kirkjuþingi í haust.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Breiðholt verður eitt prestakall með þremur sóknum verði breytingartillaga þess efnis samþykkt á kirkjuþingi í haust. Unnið var að sameiningu Breiðholtsprestakalls og Fella- og Hólaprestakalls en nú er hugmyndin að Seljaprestakall verði einnig með í sameiningunni.

Séra Gísli Jónasson, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, sagði gert ráð fyrir því að sóknirnar héldu sér áfram, það er Breiðholtssókn, Fella- og Hólasókn og Seljasókn. „Hugmyndin er að það verði einn sóknarprestur og fjórir prestar sem þjóna þessum þremur sóknum. Það eru jafn margir prestar og þjóna þeim í dag,“ sagði Gísli. „Kosturinn við þetta er sá að samstarf sóknanna mun aukast og samvinna og samþætting á ýmsum sviðum. Starfskraftar prestanna munu nýtast betur og þetta gerir mögulegar sameiginlegar mannaráðningar vegna barna- og æskulýðsstarfs, starfs fyrir eldri borgara og tónlistarstarfs í kirkjunum. Einnig er reiknað með að fjármunir muni nýtast betur.“

Gísli segir að mikið sé horft til aukinnar þjónustu við innflytjendur sem eru margir í Breiðholti. Séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda, er kominn með starfsaðstöðu í Breiðholtskirkju og heldur m.a. utan um Alþjóðlega söfnuðinn sem kemur þar saman. Þar eru reglulegar guðsþjónustur fyrir innflytjendur alla sunnudaga og er kominn safnaðarkjarni. Fólk sem ekki var kristið hefur látið skírast til kristinnar trúar.

Liggja undir skemmdum

Breiðholtskirkja þarfnast mikils viðhalds og mun sóknin fá 20 milljónir úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári. Gísli segir að með því sé hægt að hefja nauðsynlegar viðgerðir. Hann segir að mikill niðurskurður á sóknargjöldum frá hruni sé farinn að segja til sín, það hafi haft áhrif á tekjur safnaðanna og Jöfnunarsjóðsins.

„Það hefur ekki verið almennilegt viðhald á kirkjuhúsum í tíu ár frá hruni,“ sagði Gísli. „Í mínu prófastsdæmi er viðhaldsþörf kirknanna upp á hundruð milljóna. Mesta þörfin er í Kópavogskirkju þar sem menn eru í kapphlaupi við tímann að bjarga glerlistaverkum Gerðar Helgadóttur. Það er búið að laga eina hlið kirkjunnar. Fjárþörfin er hátt í hundrað milljónir í þeirri einu kirkju.“

Gísli nefnir einnig Laugarneskirkju en hluta hennar hefur verið lokað vegna myglu. Það eru afleiðingar af viðhaldsleysi. Kirkjuna teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, og er ytra byrði hennar friðað. Sjötíu ár eru liðin á þessu ári frá vígslu kirkjunnar.