Talíbanar gera mannskæðar árásir á sama tíma og þeir ræða frið

Talíbanar tilkynntu á mánudag að fulltrúar þeirra hefðu fundað með erindrekum Bandaríkjastjórnar í Katar. Slíkir fundir hafa átt sér stað af og til síðustu mánuði í þeirri von að hægt verði að binda enda á hin langvarandi átök í Afganistan, en sautján ár eru liðin frá því að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra steyptu talíbönum af stóli til þess að uppræta veru al Qaeda-samtakanna í landinu.

Viðræðurnar hafa hins vegar gengið brösuglega, jafnvel þó að báðir aðilar segist sammála því að markmiðin séu annars vegar þau að Bandaríkjaher þurfi ekki lengur að vera í Afganistan og hins vegar að landið verði ekki bækistöð fyrir öfl sem muni valda usla í öðrum ríkjum. Saka talíbanar Bandaríkjamenn um að taka ekki þátt í viðræðunum af fullum heilindum, þar sem þeir hafi einhliða sett ný skilyrði fyrir brottför herliðs síns.

Á móti verður að segja að afar lítið traust ríkir í garð talíbana og það er ekki líklegt til að aukast í ljósi þess að sama dag og viðræðurnar fóru fram í Katar gerðu vígamenn þeirra mannskæða árás á bækistöð afgönsku leyniþjónustunnar nálægt höfuðborginni Kabúl. Mannfallstölurnar úr þeirri árás hafa verið margar og misvísandi, en ljóst er að í það minnsta tugir létust og tugir særðust.

Það er ekki góður grunnur að varanlegum friði í Afganistan að stríðandi fylkingar geti ekki einu sinni komið sér saman um vopnahlé svo að viðræður geti farið fram án þess að þær séu í skugga ömurlegra ofbeldisverka líkt og gerðist á mánudaginn. Þá hefur sú ákvörðun talíbana að neita að ræða beint við stjórnvöld í Kabúl, sem talíbanar segja vera leppstjórn Bandaríkjanna, ekki hjálpað friðarferlinu.

Það eru því litlar líkur á að friður komist á í Afganistan á næstunni. Og líkurnar á að talíbanar vilji gefa mikið eftir í samningaviðræðunum eru litlar þar sem Bandaríkjastjórn hefur sagst ætla að draga verulega úr herliði sínu í landinu á næstunni. Því miður er staðan þess vegna þannig að þrátt fyrir friðarviðræður er ófriðlegt um að litast í Afganistan.

Ef samningar nást þrátt fyrir allt og Bandaríkjamenn hverfa frá landinu er þó alls óvíst að það boði gott fyrir íbúa þess. Þá er hætt við, hvað sem um verður samið í Katar eða annars staðar, að talíbanar seilist smám saman til aukinna valda. Enginn skyldi láta sér detta í hug að þeir telji sig bundna af lýðræðislegum leikreglum í því sambandi.