HM 2019
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Mikið leikjaálag hefur verið til umræðu í kringum HM í handknattleik karla sem nú stendur yfir í Þýskalandi og Danmörku. Leikið er mjög þétt, stundum tveir leikir á jafnmörgum dögum, eins dags hlé og síðan aftur einn eða tveir leikir og svo framvegis þá 18 daga sem mótið stendur yfir. Leikmenn fá aldrei nægan tíma á milli leikja til þess að jafna sig og safna kröftum.
Miklu leikjaálagi er kennt um að flest lið mótsins hafa misst úr sínum röðum tvo eða þrjá leikmenn vegna alvarlegra meiðsla. Þess utan eru margir þeirra sem enn eru með lemstraðir eftir átök nánast dag eftir dag.
Íslenska landsliðið hóf keppni 11. janúar og fékk í fyrsta sinn tveggja daga frí á milli leikja nú á lokasprettinum, þ.e. fyrir viðureignina við Brasilíu í dag sem jafnframt er lokaleikur liðsins á mótinu, sá áttundi. Eftir leikinn við Frakka hafði íslenska landsliðið leikið fjóra leiki á fimm dögum, eini leiklausi dagurinn var ferðadagur þess frá München til Kölnar sem er drjúgur spotti.
Umræðan um óheyrilegt leikjaálag á stórmótum er sannarlega ekki ný af nálinni. Leikmenn koma eins og undnar tuskur til félaga sinna að mótunum loknum og glíma sumir meira og minna við afleiðingarnar fram undir sumar þegar keppnistímabili félagsliðanna lýkur. Þrátt fyrir miklar umræður hefur lítið breyst. Örlítið hefur verið slakað á klónni af hálfu Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, sem heldur heimsmeistaramótin og Handknattleikssambands Evrópu, EHF, sem ber ábyrgð á Evrópumeistaramótunum. Mótin hafa verið lengd um tvo daga en ekki meira. Viljinn til þess að taka af skarið og setjast niður með forsvarsmönnum stærstu deildanna í Evópu og leita lausna virðist vera af skornum skammti.
Allt kemur þetta niður á leikmönnunum, þeim sem eiga að skemmta áhorfendum á keppnisvöllunum.
Steininn tók úr að margra mati á HM í Frakklandi fyrir tveimur árum þegar Króatar og Norðmenn mættust í undanúrslitum á föstudagskvöldi. Kvöldið áður hafði Frakkland unnið Slóvena í hinum undanúrslitaleiknum. Viðureign Króatíu og Norðmanna var framlengd áður en úrslit fengust. Norðmenn fögnuðu loks sigri og léku úrslitaleik við Frakka einum og hálfum sólarhring síðar, leik þar sem heimamennn fengu sólarhring lengri hvíld. Hversu sanngjarnt var það?
Þar með var ekki öll sagan sögð því Króatar mættu til leiks í viðureigninni við Slóvena um þriðja sætið 16 tímum eftir að framlengdum undanúrslitaleik þeirra við Norðmanna lauk. Eftir að hafa haft yfirhöndina í 50 mínútur sprakk á öllum hjólum undir vagni króatíska liðsins. Það tapaði leik sem það hafði verið með yfirhöndina í og yfirburði um skeið á síðustu tíu mínútunum. Leikmenn gátu ekki einu sinni leikið gönguboltann sem þeir reyndu meira af vilja en mætti að leika. Þeir voru gjörsamlega örmagna. Slóvenum svall móður. Þeir unnu leikinn enda fengið lengri hvíldartíma.
Auðvitað unnu Frakkar úrslitaleikinn við Norðmenn á sunnudeginum enda fengið nærri þrjá sólarhringa til að kasta mæðinni. Takmörkuðum gæðum á stórmótum er misjafnlega skipt ofan á annað.