Það virðist sem Ríkissjónvarpið sé heldur að gefa í hvað sýningar á athyglisverðum heimildarmyndum og fræðsluefni varðar, og er það vel. Og þar er rétt ákvörðun hjá þeim sem stýra málum þar á bæ, nú á tímum þegar leikið efni, kvikmyndir sem þættir, flæðir úr streymisveitunum yfir sjónvarpssófa landsmanna, að leggja þá meiri áherslu á fræðsluþáttinn í lögbundinni skyldumiðluninni. Enda eru vandaðar heimildarmyndir oftar en ekki miklu mun áhugaverðari en leikið formúluefni. Svipaðri stefnu er fylgt á norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum þar sem oft má fylgjast með góðum heimildarmyndum, til dæmis um sjónlistir og hönnun.
Ríkissjónvarpið sýndi í fyrrakvöld athyglisverða mynd um stjörnuarkitektinn Frank Gehry – sjónarhornið var nokkuð sérkennilegt fyrir okkur hér norður í hafi, miðað við ástralska áhorfendur, en þátturinn fræðandi. Og íslenska efnið hefur líka verið gott, til að mynda kvikmyndir um feril hljómsveitarinnar Mezzoforte og svo ekki síst hin meistaralega kvikmynd um Birgi heitinn Andrésson myndlistarmann; óvenjuleg og hæg kvikmynd sem dró upp fyrir áhorfendur fallega mynd af merkum listamanni.
Einar Falur Ingólfsson