Í vinnunni Valdís í klippiherberginu úti á Granda. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir list sína, m.a. BAFTA.
Í vinnunni Valdís í klippiherberginu úti á Granda. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir list sína, m.a. BAFTA. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valdís Óskarsdóttir, einn þekktasti og farsælasti kvikmyndaklippari landsins, var ein þeirra sem hlutu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag og ein þriggja listamanna en hinir voru Páll Óskar Hjálmtýsson og Þórhallur Sigurðsson, Laddi. „Þegar ég kom á Bessastaði var Laddi fyrsti maðurinn sem ég kom auga á og svo Páll Óskar sem var við hliðina á honum og ég varð svo óheyrilega glöð að sjá þá tvo í hópnum, heiður minn jókst um helming,“ segir Valdís.

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Valdís Óskarsdóttir, einn þekktasti og farsælasti kvikmyndaklippari landsins, var ein þeirra sem hlutu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag og ein þriggja listamanna en hinir voru Páll Óskar Hjálmtýsson og Þórhallur Sigurðsson, Laddi. „Þegar ég kom á Bessastaði var Laddi fyrsti maðurinn sem ég kom auga á og svo Páll Óskar sem var við hliðina á honum og ég varð svo óheyrilega glöð að sjá þá tvo í hópnum, heiður minn jókst um helming,“ segir Valdís þegar hún er spurð að því hvort það hafi ekki yljað henni um hjartarætur að hljóta fálkaorðuna með þessum þjóðþekktu og dáðu listamönnum. Valdís segist ekki síður hafa verið ánægð með að Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður skyldi hljóta orðuna fyrir framlag sitt til mannréttindamála og réttindabaráttu. En hvernig leið henni þegar hringt var í hana og henni tilkynnt um að hún hlyti orðuna? „Það kom mér bara mjög á óvart, ég verð að segja það eins og er,“ svarar hún.

– Þetta er auðvitað allt öðruvísi en að fá virt kvikmyndaverðlaun, ekki satt?

„Já, mér fannst það af því verðlaun eru svo mismunandi. Þú getur fengið Eddu og Robert og guð má vita hvað, BAFTA, Óskar og svo framvegis en mér fannst fálkaorðan vera pínulítið eins og BAFTA númer 2. Nema hvað að BAFTA fæ ég fyrir Eternal Sunshine of the Spotless Mind en fálkaorðan veitir mér viðurkenningu fyrir allar mínar myndir og allt mitt starf. Hún er því eiginlega stærri og meiri.“

Veislan vendipunktur

Og allt hennar starf er ekkert smáræði, eins og sjá má m.a. á vefnum Internet Movie Database . Þar eru klippiverkefni Valdísar sögð 53 talsins, þ.e. 53 kvikmyndir og hún hefur komið að 13 myndum að auki sem ráðgjafi, umsjónarmaður eða aðstoðarmaður klippara. Þá hefur hún leikstýrt og skrifað handrit tveggja íslenskra kvikmynda, Kóngavegar og Sveitabrúðkaups , komið að framleiðslu einnar kvikmyndar, A Beautiful Now og klippt hljóð í annarri, Stellu í orlofi . Ferillinn er bæði langur og glæsilegur og að öðrum kvikmyndum ólöstuðum eru fyrrnefnd Eternal Sunshine of the Spotless Mind og hin danska Festen líklega þær þekktustu sem Valdís hefur klippt.

Fyrir Eternal Sunshine hlaut Valdís hin eftirsóttu og ensku BAFTA-verðlaun árið 2005 fyrir bestu klippingu. Blaðamaður spyr hvort sú kvikmynd hafi reynst vendipunktur í hennar ferli og segir hún Festen , Veisluna , frá árinu 1998, miklu heldur hafa verið það. Enda vakti sú kvikmynd leikstjórans Thomas Vinterberg gríðarlega athygli víða um heim og hlaut fjölda verðlauna, m.a. sjö Robert-verðlaun í heimalandinu og þeirra á meðal fyrir bestu klippingu.

Leyfi til að gera hvað sem er

Veislan var gerð eftir tíu reglum Dogma-sáttmálans sem Lars von Trier samdi ásamt Vinterberg og kvað m.a. á um að tökur kvikmyndar yrðu að fara fram á tökustað en ekki í stúdíói, að ekki mætti nota aðra leikmuni eða leikmynd en sem fyrir voru á tökustað, að ekki mætti nota annað hljóð en það sem tekið var upp samtímis myndatöku og að halda yrði á upptökuvélinni.

Valdís er spurð að því hvort hún hafi gert sér grein fyrir því þegar hún var að klippa Veisluna að hún yrði merkileg kvikmynd og segist hún ekki hafa gert það. „Ég gerði það ekki. Þegar Thomas bað mig um að klippa Festen var ég að vinna í Prag og hafði ekki heyrt neitt um Dogma-fyrirbærið. Sagði bara já af því ég vildi vinna með honum aftur. Verkefnið í Prag var algert niðurrifsverkefni svo þegar ég mætti í klippiherbergið var álit mitt á sjálfri mér sem klippara í algeru núlli og það tók mig vikur að lappa upp á sjálfstraustið. Ég las yfir Dogma reglurnar og gerði mér grein fyrir því að enginn vissi hvernig Dogma-mynd ætti að líta út og þar af leiðandi vissi enginn hvernig ætti eða mætti klippa Dogma-mynd og ég hugsaði með mér: Flott, þá má ég gera hvað sem er og það gerði ég. Forðaðist allt sem tilheyrði einhverjum venjum í klippingu og fyrsta hugsunin þegar ég byrjaði á senu var alltaf hvað ég gæti gert öðruvísi, hvernig myndi ég venjulega byrja senuna og svo gerði ég allt þveröfugt við það sem ég hafði áður gert,“ segir Valdís. Hún hafi getað gert það sem henni sýndist sem hafi bæði verið skemmtilegt og erfitt en um leið krefjandi og skapandi.

Valdís segir að framleiðendur og sölufulltrúar hafi ekki haft mikla trú á myndinni eftir að hafa horft á fyrsta klipp, talið að enginn myndi vilja sjá hana. „En ég hafði alltaf trú á því að þarna væri góð mynd en mér datt aldrei í hug að hún myndi vekja svona mikla athygli. Það var fyrst þegar ég fór í verkefni í Bandaríkjunum og hitti fólk sem sagði já vá, við sáum Festen , brjálæðisleg mynd. Þá gerði ég mér grein fyrir hvað hún hafði farið víða og haft mikil áhrif.“

Ekki svo langur tími

Valdís er spurð að því hvaða kvikmyndir séu henni eftirminnilegastar af þeim sem hún hefur klippt og segir hún að það séu Festen , Julien Donkey-Boy eftir Harmony Korine, Eternal Sunshine of the Spotless Mind , XL eftir Martein Þórsson og Bolden , bandarísk mynd um Buddy Bolden, upphafsmann djasssveiflunnar í New Orleans. „Allar þessar myndir kröfðust þess að ég hugsaði út fyrir boxið og ég lærði að það er ekkert sem setur mér takmörk í klippingu nema mitt eigið ímyndunarafl og þar fyrir utan að hafa óendanlega þolinmæði og klippa senur saman og sundur og saman aftur og aftur og aftur.“

Valdís segist kunna vel við sig í klippiherberginu. Þar sé rólegt og afslappað en stundum svolítið einmanalegt og þess vegna sé nauðsynlegt að hafa góða aðstoðarklippara sem hægt sé að tala við þegar allt gengur á afturfótunum og ekkert virkar því ekki tuðar klippari við leikstjórann.

„Ég var svo heppin að fá Sigga Eyþórs sem aðstoðarklippara í Kóngavegi árið 2010 og hann hélt áfram að vinna með mér sem aðstoðarklippari í nokkur ár,“ segir Valdís. „Siggi klippti alltaf senur í myndunum sem við klipptum og árið 2013, þegar við unnum í Lost River sem Ryan Gosling leikstýrði, var Siggi meðklippari.“

Síðan þá hafa þau Sigurður, eða Siggi, verið teymi og m.a. klippt saman sjónvarpsþættina Fanga .

Hætti að fara í bíó

– Kannski er þetta vonlaus spurning að svara en hvað einkennir góða klippingu, að þínu mati?

Valdís hlær og hugsar sig um í smástund, segir svo: „Ég myndi halda að góð klipping væri klipping sem heldur áhorfendum rígföstum alla myndina frá upphafi til enda.“

– Maður á náttúrlega ekki að taka eftir klippingunni, nema maður sé klippari því þá ertu alltaf að fylgjast með henni?

„Já, þess vegna hætti ég að fara í bíó, það þýddi ekkert fyrir mig því ég horfði bara á hvernig myndin var klippt,“ segir Valdís kímin.

– Þú hefur leikstýrt tveimur kvikmyndum, ætlarðu að leikstýra fleirum eða fékkstu kannski nóg?

„Nei, mér fannst ofsalega gaman og sérstaklega gaman að vinna Sveitabrúðkaup vegna þess að hún var unnin mjög hratt og mig langaði að gera eitthvað sem tæki ekki ofsalega langan tíma, líkt og að klippa bíómynd. Mig langaði að vinna með fólki sem væri að vinna með mér en ekki á móti mér,“ svarar Valdís. „Ég fékk krakkana úr Vesturporti og frábært tökulið og svo var bara lagt af stað og myndin skotin á sjö dögum. Hún var tekin í réttri röð, við byrjuðum á byrjuninni og héldum svo áfram til loka myndarinnar.

Það gat verið töluverð keyrsla á milli tökustaða og á meðan tókum við upp atriði í rútunum svo það var engin pása. Leikararnir voru í sínum hlutverkum frá því að við byrjuðum á morgnana og þar til var sagt bless á kvöldin.“

Valdís segist vilja gera aftur kvikmynd með sömu aðferð og hún beitti í Sveitabrúðkaupi . „Þegar ég verð orðin svo rík að ég þarf ekki að vinna fyrir mér í klippingu þá geri ég þetta og get þá kannski bara borgað sjálf tökudagana,“ bætir hún við.

MTV breytti miklu

Talið berst að því hvernig klippilistin hafi breyst frá því Valdís hóf að stunda hana og segir hún breytingarnar einkum fólgnar í því að myndirnar séu orðnar fjölbreyttari. „Flóran er orðin svakalega mikil og að því leytinu til hefur hún breyst en ekki sjálf vinnan,“ segir hún. Blaðamaður bendir á breytingar í takti, að klippingar hafi orðið miklu örari á seinustu áratugum og segir Valdís að þær hafi þegar verið orðnar það þegar hún klippti Festen . „MTV breytti ofsalega mikið hvernig fólk horfði, allt í einu var komin mjög hröð klipping og fólk vandist því að lesa mjög hraða klippingu,“ segir hún og á þar við myndabandasjónvarpsstöðina margfrægu.

– Þannig að tónlistarmyndböndin hafa haft mikil áhrif?

„Já, þau höfðu áhrif.“

Valdís hefur iðulega nóg fyrir stafni og er núna að klippa sjónvarpsþætti framleidda af True North, Mystery og RÚV sem heita Valhalla Murders og eru með Nínu Dögg Filippusdóttur og Birni Thors í aðalhlutverkum. „Mér finnst þetta mjög spennandi verkefni,“ segir Valdís sem klippir þættina með Sigga. Þau klipptu einnig nýjustu mynd Vinterberg, Kursk , sem fjallar um samnefndan rússneskan kafbát sem sökk árið 2000.

Á hvaða stofu?

Blaðamaður spyr Valdísi að því hvort hún telji starf klipparans vanmetið eða vanþakklátt þar sem þeir njóti jafnan lítillar athygli. „Ég held að það sé kannski vegna þess að fólk veit ekkert hvað klipparar gera, margir halda að ég sé hárgreiðslukona þegar ég segist vera klippari og spyrja á hvaða stofu ég vinni,“ segir Valdís og hlær. Þá haldi margir að leikstjóri sitji við hlið klipparanna og segi hvar eigi að klippa inn og klippa út og hvaða tökur eigi að nota hvar og hvernig en svo sé ekki.

Klipparar byrja að klippa myndina meðan á tökum stendur og ákveða hvernig þeir vilja setja senuna saman, segir Valdís og að leikstjórar merki þær tökur sem þeim þyki bestar í hverri senu á tökustað og þyki klippurum þær ekki góðar velji þeir aðrar tökur. „Það getur verið villandi fyrir leikstjóra að vera á setti, út af spennu og öllum þeim asa sem er umhverfis þá og það getur haft áhrif á val þeirra á bestu tökunni. Klippararnir, aftur á móti, hafa bara það sem er í tölvunni fyrir framan þá og velja það sem best lýsir senunni og persónum sögunnar.

Það er ekki fyrr en klippari hefur lokið við að klippa fyrsta klipp af myndinni sem leikstjórar horfa á myndina og það er yfirleitt tveimur vikum eftir að tökum lýkur. Þá tekur við önnur yfirferð á myndinni þar sem leikstjórar koma með sínar athugasemdir og farið er yfir þær. Þegar sú yfirferð er búin er byrjað aftur að fara yfir myndina. Þannig er haldið áfram þangað til myndin, að mati leikstjóra, klippara og framleiðanda, er tilbúin. Þegar upp er staðið hefur myndin oft og iðulega breyst töluvert frá upprunalegu handriti,“ segir Valdís.

„Það eru fleiri en ég sem segja að kvikmynd verði til í klippiherberginu og allt sem á undan kemur sé undirbúningur. Fyrsta stig er handrit. Annað stig eru tökur. Lokastigið er klipping.“