Eftir að Ísland tryggði sér sæti í milliriðlum á fimmtudag fóru landsmenn skiljanlega að velta því fyrir sér hvenær íslenska liðið myndi spila næstu leiki. Það var ekki hægt að svara því með vissu eftir leikinn og ekki heldur um leið og síðustu leikjunum í riðlakeppninni lauk seinna um kvöldið.
Það skipti engu máli hvar var leitað, IHF gat ekki gefið staðfesta leiktíma, og leikdaga, fyrr en seint og illa. Það varð til þess að umræða á samfélagsmiðlum var út og suður þar sem fólk var að fara eftir mismunandi upplýsingum. Ég sá í það minnsta þrjár mismunandi útfærslur þar sem fullyrt var hvenær Ísland myndi spila leiki sína í milliriðlinum.
Því hjá IHF er það ekki svo einfalt að hægt sé að negla niður fyrir mótið að þriðja sætið í riðli A mæti efsta liðinu í riðli B og svo framvegis, svo dæmi sé tekið. Það var ekki einu sinni hægt að vera viss um leikdagana, hvað þá tímasetningu leikjanna.
Svona lagað þekkist ekki í öðrum stórum íþróttagreinum. Mér er til dæmis mjög minnisstætt á EM í knattspyrnu í Frakklandi 2016 þegar Ísland var búið að vinna Austurríki með marki á lokasekúndunum. Í miðri geðshræringunni í leikslok var strax hægt að sjá hvað væri næst á dagskrá og við íslensku kollegarnir kölluðum okkar á milli í stúkunni: „Englandi í Nice!“ Það gerði augnablikið bara ennþá betra.
En nei, þetta er ekki hægt í handboltanum. Hann þarf alltaf að vera sér á báti.