Stjarnan varð síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum í Geysisbikarkeppni karla í körfuknattleik. Stjörnumenn gerðu góða ferð til Sauðárkróks þar sem þeir lögðu ríkjandi bikarmeistara Tindastóls 81:61.
Garðbæingar höfðu undirtökin allan tímann en þeir gerðu út um leikinn í byrjun síðari hálfleiks. Þeir skoruðu þá 15 stig gegn engu heimamanna en Stólunum tókst ekki að skora sín fyrstu stig í hálfleiknum fyrr en sex og hálf mínúta var liðinn af honum.
Stjörnumenn voru gríðarlega baráttuglaðir og spiluðu frábæran varnarleik sem Tindastólsmenn áttu engin svör við. Liðsheildin var öflug hjá Garðbæingum en Ægir Þór Steinarsson og Brandon Rozzell voru stigahæstir í liðinu með 21 stig hvor.
Stólarnir eru í niðursveiflu um þessar mundir en þeir töpuðu fyrir Haukum í deildinni um síðustu helgi og ekki er langt síðan þeir lágu fyrir Þór Þorlákshöfn. Urald King sneri aftur í liði Tindastóls eftir fæðingarorlof og hann var stigahæstur í liði Sauðkrækinga með 16 stig en lék þó nánast á öðrum fætinum því hann var draghaltur.
gummih@mbl.is