Á hundrað ára afmæli fullveldis Íslands er ljóst að hugsjónin um fullveldi þjóðarinnar gæti verið að breytast í það ósjálfstæði og framtaksleysi að bíða eftir hjálpræðinu frá Evrópusambandinu. Höfum við vanist þeirri afstöðu að samþykkja athugasemdalaust tilskipanir ESB uns við erum vaxin saman við þær?
Lögð er áhersla á það af hálfu þeirra sem vilja að Ísland samþykki þriðja orkupakkann, að EES-samningurinn hafi reynst Íslendingum mjög vel. Jafnvel er ýjað að því að aðild að EES hafi verið forsenda mikils efnahagslegs uppgangs á árunum 1994-2002.
Nú vill svo til að engin formleg, fræðileg og ítarleg athugun hefur farið fram á því hve vel EES-samningurinn hafi reynst Íslendingum. Margt hefur breyst á þeim tíma sem samningurinn hefur verið í gildi. Rétt er að líta til þess árangurs sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur síðan 1994 náð í viðleitni sinni til að lækka eða fella niður hindranir á viðskiptum landa í millum. Það er ljóst að EES-samningurinn hefur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir Ísland og mikið reglugerðafargan hefur fylgt honum, sem í mörgum tilfellum á hingað lítið sem ekkert erindi en getur verið skaðlegt.
EES-aðild metin hlutlaust
Það er full ástæða til þess að farið verði með skipulegum hætti yfir þessa sögu og reynt að komast að því með hlutlausri rannsókn hver ávinningur okkar er af þessari samningsgerð. Það nægir á hinn bóginn ekki að bregða einhvers konar Dagsbirtu á þetta mál.Það er ekki viðeigandi að fela þeim þessa athugun sem hafa þegar komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn hafi reynst okkur mjög vel, svo vel að það eigi að búa honum sérstakt svigrúm með breytingu á stjórnarskrá Íslands. Hætt er við að sú ótímabæra niðurstaða leiði til þess sem við höfum hingað til nefnt fordóma og leiða af sér óhæfi til að fjalla hlutlaust um reynsluna af EES.
Á þeim árum, sem samningarnir um EES voru til athugunar og umfjöllunar á Alþingi, stóð yfir mikil vinna við að laga útgjöld íslenska ríkisins að tekjum og takast á við miklar opinberar skuldir þjóðarinnar. Það verk hvíldi á herðum Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og tókst vel, svo vel að upp úr 1995 fór í hönd hagvaxtartímabil sem stóð í tæpan áratug (þótt skammærrar kreppu gætti 2001-2002). Var tímabilið notað til að greiða niður opinberar skuldir Íslendinga, lækka skatta fyrirtækja – en við það jukust skatttekjur ríkisins – og lækka síðan skatta einstaklinga.
Þáverandi samstarfmenn Sjálfstæðisflokksins minnast ekki þessa tíma með því stolti sem þeim ber. Alþýðuflokkurinn átti mikilvægan þátt í að laga útgjöld ríkisins að tekjum og taka til í ríkisfjármálum. Þeir hafa þvert á móti aðhyllst þá ranghugmynd að árangurinn hafi komið að utan og verið EES-samningnum að þakka. Þessar ranghugmyndir eru þeim mun annarlegri, sem Alþýðuflokkurinn fór út af sporinu í lok samstarfsins, taldi EES-samninginn ófullnægjandi og hvatti til aðildar að ESB. Fyrir það frumhlaup refsaði þjóðin flokknum í kosningum 1995.
Ásælinn samningur og framsækinn
Þegar aðildin að EES var rædd og undirbúin var flestum ljóst að framsal valds til evrópskra stofnana skapaði vandamál varðandi stjórnarskrá Íslands. Á þeim tíma var talið að framsalið væri á takmörkuðu sviði og því hægt að telja það standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Nú hefur þetta framsal aukist. Er það meginástæða þess að ákveðin öfl leitast nú við af fremsta megni að breyta stjórnarskránni á þann veg að hún heimili framsal. Aðrir vilja huga að því hvort rétt sé að styrkja stjórnvöld í þeirri viðleitni að athuga gaumgæfilega og með gagnrýnum hætti innleiðingu reglugerða ESB og beita neitun ef mál ganga gegn hagsmunum Íslands. Enn öðrum finnst kominn tími til að hefja umræður um að endurskoða aðild að EES.
Hugarfarsbreytingin er hafin
Það er hins vegar fleira en lög og jafnvel stjórnarskrá, sem þarf að breyta til þess að hægt verði að laga Íslendinga betur að draumórum um Evrópustórríkið og flytja með þægilegum hætti fullveldi þjóðarinnar enn frekar til æðri staða. Það þarf hugarfarsbreytingu. Og hún er hafin. Hún felst í því að hætta að taka til í eigin ranni og bíða þess að aðrir geri það. Í stað þess að aðhafast er beðið. Sá ágæti lögfræðingur, Hilmar Gunnlaugsson, sem ég vitnaði til í fyrri grein, telur að það sé hægt að horfa með vonaraugum fram til fjórða orkupakka ESB. Þar verði hugsanlega að finna lausn á orkumálum íslenskra garðyrkjubænda. Hvers vegna ættum við að hafa áhyggjur af slíkum málum ef úrlausnar er að vænta frá ESB? Lögfræðingurinn er sestur í biðstofuna.
Hinn beini og breiði vegur
Sjálfsagt tekur það mannsaldur að breyta hugarfari heillar þjóðar. Á hundrað ára afmæli fullveldis Íslands er ljóst að hugsjónin um fullveldi þjóðarinnar gæti verið að breytast í það ósjálfstæði og framtaksleysi að bíða eftir hjálpræðinu frá Evrópusambandinu. Höfum við vanist þeirri afstöðu að samþykkja athugasemdalaust tilskipanir ESB uns við erum vaxin saman við þær? Þegar ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir (í Mbl. 18. september sl.) að ekki verði séð að innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér meiri háttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki, og ekki sé ljóst hvert það myndi leiða yrði honum hafnað, vaknar áleitin spurning. Erum við að troða farveg sem víkkar og þjappast með hverju minniháttar fráviki uns summa frávikanna verður hinn breiði og beini vegur íslensks uppburðarleysis í stjórnmálum og umkomuleysis í fullveldismálum?Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.