Þó að viljinn virðist góður er óvíst að hann dugi til

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari undirrituðu í gær nýjan sáttmála, sem ætlað er að styrkja vináttutengsl ríkjanna tveggja á þeim miklu óvissutímum sem nú eru uppi í Evrópusambandinu. Heita ríkin tvö í sáttmálanum að auka samvinnu á sviðum stjórnmála, efnahagsmála og varnarmála, ásamt því sem þau hétu bæði áframhaldandi stuðningi sínum við Evrópusambandið og samrunaferli þess.

Táknræn merking sáttmálans var undirstrikuð með því að undirritunin fór fram í Aachen, fyrrum höfuðborg Karlamagnúsar, stofnanda hins heilaga rómverska keisaradæmis, en veldi hans spannaði á hátindi sínum Frakkland og megnið af því sem í dag er Þýskaland.

Táknrænir gjörningar geta þó átt til að líta fremur illa út þegar nánar er að gáð. Báðir leiðtogarnir sem þarna héldu á penna hafa laskast mikið á undanförnum mánuðum. Þó að enn séu tvö ár í að Merkel hyggist láta af kanslaraembættinu er hún engu að síður á útleið eftir að flokkur hennar fór halloka í kosningum á síðasta ári. Þá hafa boðaðar umbætur Macrons í Frakklandi drukknað í hafsjó gulra vesta.

Á sama tíma standa ríkin tvö frammi fyrir miklum vanda vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Framtíð þess er í óvissu, ekki síst framtíð Evrusvæðisins, sem bæði ríkin tilheyra og hafa viljað þvinga öll önnur ríki sambandsins inn í.

Vegna þessarar óvissu er meiri þörf nú en oft áður á að Frakkland og Þýskaland standi þétt saman eigi þeim að takast að láta áformin um æ nánari samvinnu Evrópusambandsríkjanna verða að veruleika. En þó að vináttusáttmáli Macrons og Merkel kunni að hjálpa í þeim efnum er ekki líklegt að hann dugi til.