Á Hlíðarenda
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Valskonur voru ekki í miklum vandræðum með Stjörnuna þegar liðin mættust á Hlíðarenda í 13. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í gær en leiknum lauk með þægilegum þriggja marka sigri Vals, 19:16.
Valskonur byrjuðu leikinn betur og náðu snemma þriggja marka forskoti. Stjörnukonur unnu sig ágætlega inn í leikinn og var munurinn á liðunum eitt mark í hálfleik. Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti, náðu snemma fjögurra marka forskoti, og eftir það voru Garðbæingar aldrei líklegir til þess að koma til baka.
Valsliðið hefur oft spilað betur en í gær. Þeim til happs þá eru þær með Írisi Björk Símonardóttur í markinu hjá sér og hún virðist alltaf standa fyrir sínu. Þá var varnarleikur liðsins mjög góður en sóknarleikurinn var bæði hægur og staður. Valsliðið skaut illa en það kom ekki að sök í gær og það sýnir kannski styrk liðsins að þær geta unnið jafna leiki, þótt þær séu langt frá sínu besta.
Stjörnustúlkur geta þakkað Hildi Öder Einarsdóttur fyrir það að hafa ekki tapað með tíu mörkum í gær. Hún varði 17 skot í leiknum og hélt liðinu algerlega á floti. Sóknarleikur Garðbæinga var hrein og klár hörmung. Hraðinn var enginn og skytturnar þorðu ekki að skjóta á markið. Þá skoraði liðið ekki mark af línunni og þeim gekk ekkert að opna hornin.
Valskonur eru á mjög góðum skriði og þær virðast geta unnið leiki, jafnvel þótt þær séu ekki að eiga sinn besta dag, og það gerir þær að meistaraefnum. Stjarnan þarf að spýta vel í lófana og Sebastian Alexandersson þarf að finna lausnir í sóknarleik sínum ef ekki á illa að fara í Garðabænum í vor.
*Haukar burstuðu Selfoss 33:20 á heimavelli sínum og komust upp fyrir ÍBV í 3. sæti. Marina Peirera skoraði 9 mörk fyrir Hauka og Ramune Pekarskyte 7 en hjá Selfyssingum var Perla Ruth Albertsdóttir markahæst með 6 mörk.
*KA/Þór vann góðan sigur gegn HK 19:17 á Akureyri. Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði 7 mörk fyrir Akureyrarliðið en Díana Kristín Sigmarsdóttir var með 8 mörk fyrir HK.