Lélegur Donald Trump þykir leika sjálfan sig afskaplega illa.
Lélegur Donald Trump þykir leika sjálfan sig afskaplega illa. — AFP
Leikararnir John Travolta, Melissa McCarthy, Bruce Willis, Jennifer Garner og Bandaríkjaforseti, Donald Trump, eru meðal þeirra sem hljóta tilnefningar til Razzie-verðlaunanna svokölluðu, bandarísku kvikmyndaskammarverðlaunanna sem eru iðulega afhent um...

Leikararnir John Travolta, Melissa McCarthy, Bruce Willis, Jennifer Garner og Bandaríkjaforseti, Donald Trump, eru meðal þeirra sem hljóta tilnefningar til Razzie-verðlaunanna svokölluðu, bandarísku kvikmyndaskammarverðlaunanna sem eru iðulega afhent um svipað leyti og Óskarsverðlaunin. Verður það nú gert í 39. sinn og kemur þá í ljós hvaða kvikmyndir þóttu verstar á árinu 2018, hvaða leikarar og hvaða leikstjóri.

Kvikmyndirnar sem tilnefndar eru sem versta kvikmyndin eru Gotti , The Happytime Murders , Holmes & Watson , Robin Hood og Winchester . Travolta þykir hörmulegur í Gotti líkt og McCarthy í The Happytime murders og Life of the Party . Willis þykir einkar slakur í Death Wish líkt og Garner í hasarmyndinni Peppermint .

Eflaust kemur mörgum á óvart að Trump sé tilnefndur en tilnefninguna hlýtur hann fyrir að leika sjálfan sig í myndefni sem sjá má í heimildarmyndunum Death of a Nation og Fahrenheit 11/9 . Þess má geta að fyrrnefnda myndin hlýtur meðaltalseinkunnina 1 af 100 mögulegum á vefnum Metacritic sem tekur saman gagnrýni fjölda kvikmyndagagnrýnenda. Razzie-verðlaunin heita fullu nafni The Golden Raspberry Award og voru fyrst veitt árið 1981. Í ár verða þau veitt 23. febrúar, kvöldið áður en Óskarsverðlaunin verða afhent.

Verðlaun fyrir það versta eru veitt í fleiri flokkum, m.a. fyrir verstu endurgerð, stælingu eða framhaldsmynd og kemst Death Wish m.a. þar á blað. Í flokki verstu leikstjóra eru tilnefndir Ethan Coen fyrir Holmes & Watson , Kevin Connolly fyrir Gotti , James Foley fyrir Fifty Shades Freed , Brian Henson fyrir The Happytime Murders og Spierig-bræður fyrir Winchester .