Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur tekið þá ákvörðun að leyfa fjörutíu og tveimur íþróttamönnum frá Rússlandi að keppa á alþjóðlegum mótum á innanhússtímabilinu í vetur. Íþróttafólkinu verður þó ekki heimilt að keppa undir merkjum Rússlands heldur geta þau keppt án þess að vera tengd neinu ríki hafi þau áhuga að þiggja boðið.
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið setti Rússa í keppnisbann í nóvember árið 2015 eftir að upp komst um skipulagt lyfjamisferli. Í desember komu Rússar sér aftur í vandræði þegar eftirlitsmönnum Alþjóðalyfjaeftirlitsins var meinað að skoða lyfjaeftirlitið í Moskvu eins og ákveðið hafði verið.
Stærsta mótið á keppnistímabilinu innanhúss í Evrópu er Evrópumeistaramótið sem að þessu sinni er haldið í Glasgow í byrjun mars. Aníta Hinriksdóttir fékk bronsverðlaun á EM fyrir tveimur árum.