Brúarvirkjun Búið er að steypa grunn stöðvarhúss og þar eru komnar inntakspípur að tveimur túrbínum virkjunarinnar sem verður tilbúin að ári.
Brúarvirkjun Búið er að steypa grunn stöðvarhúss og þar eru komnar inntakspípur að tveimur túrbínum virkjunarinnar sem verður tilbúin að ári. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Góður gangur er í framkvæmdum við byggingu Brúarvirkjunar í Tungufljóti í Biskupstungum og um 60 manns eru þar nú að störfum.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Góður gangur er í framkvæmdum við byggingu Brúarvirkjunar í Tungufljóti í Biskupstungum og um 60 manns eru þar nú að störfum. Það er HS Orka sem stendur að þessu verkefni en vonir standa til að framkvæmdum ljúki í mars á næsta ári. Ístak er aðalverktakinn og þessa dagana er verið að vinna við stíflumannvirki og grunn stöðvarhússins. Þá hefur verið grafinn skurður þar sem aðrennslispípurnar að stöðvarhúsinu munu liggja.

Kærur afgreiddar

Það var á útmánuðum í fyrra sem fyrsta skóflustungan að virkjuninni var tekin en þá áttu öll formsatriði að vera komin á hreint. Fyrir lá framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Bláskógabyggð, en útgáfa þess var kærð af Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Suðurlands sem töldu ekki sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir krefðust virkjunar, verið væri að fórna birkiskógum og votlendi og að rannsóknum á umhverfisáhrifum virkjunarinnar á vatnafar í nágrenninu væri áfátt. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taldi ekki ástæðu til að stöðva framkvæmdir og sl. fimmtudag vísaði nefndin efnisatriðum kærunnar frá.

Margeir Ingólfsson bóndi á Brú og eigandi landsins sem virkjunin stendur á segist því líta svo á að fullnaðarsigur hafi unnist í málinu.

Kostar fjóra milljarða

Uppsett afl er 9,9 MW í Brúarvirkjun sem nýtir 49 metra fallhæð á 1.700 metrum í Tungufljóti, það er ofan þjóðvegarins sem liggur milli Gullfoss og Geysis. Hvorki stöðvarhús né stíflumannvirki sjást frá þjóðveginum og aðrennslispípur verða allar niðurgrafnar. Um þær verður veitt alls um 25 sekúndulítrum af vatni, sem verða notaðir til að knýja tvær túrbínur virkjunarinnar, en heildarkostnaður við byggingu hennar er áætlaður rúmir fjórir milljarðar króna.

„Sennilega eru um tólf ár síðan ég fór að kanna möguleikana á virkjun Tungufljótsins. Strax í upphafi var mér ljóst að þetta væri raunhæfur virkjunarkostur, rétt eins og ítarlegar rannsóknir sem gera þurfti leiddu í ljós,“ segir Margeir Ingólfsson. Snemma í ferlinu fékk hann HS Orku að borðinu og er þetta fyrsta vatnsaflsstöðin sem fyrirtækið byggir.

„Alveg frá upphafi lögðum við mikla áherslu á að framkvæmdir væru í góðri sátt við umhverfi og náttúru og óskuðum við eftir því við Skipulagsstofnun að fara með framkvæmdina í umhverfismat þó svo að þess væri ekki þörf þar sem hún er undir 10 MW. Matið kom mjög vel út og nýttist það okkur vel við undirbúning framkvæmdarinnar. Því fannst mér mjög sérstakt að Landvernd skyldi kæra útgáfu framkvæmdaleyfisins þegar umhverfismatið hafði staðfest að virkjunin væri í góðri sátt við náttúru og umhverfi.“

Um það bil 5 hektarar af gróðurlendi, að hluta til votlendi, fara undir framkvæmdir við inntak virkjunarinnar og til mótvægis hefur HS Orka samið við Skógræktina um að planta alls 25 þúsund plöntum á 10 hektarar landsvæði í Haukdal. Auk þess verður votlendi á Mosfelli í Grímsnesi, í landi Skógræktarinnar þar, endurheimt.

„Þessi raforkuframleiðsla fellur einstaklega vel að umhverfinu og þörfum samfélagsins, “ segir Margeir Ingólfsson. Þannig verður rafmagni frá væntanlegri aflstöð veitt um jarðstreng að tengivirki RARIK að Reykholti í Biskupstungum og þaðan áfram til kaupenda í nágrenninu. Í uppsveitum Árnessýslu eru til dæmis margar garðyrkjustöðvar en mikla orku þarf til framleiðslunnar þar.