*Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo mætti í gær í réttarsal í Madríd þar sem hann svaraði fyrir ákæru er varðar skattalagabrot hans. Ronaldo, sem nú spilar með Juventus á Ítalíu, óskaði eftir því að gefa skýrslu í gegnum fjarskiptabúnað en dómari hafnaði því. Honum er gefið að sök að hafa svikið undan skatti á Spáni árin 2011 til 2014 þegar hann var leikmaður Real Madrid og búsettur í spænsku höfuðborginni. Er talið að hann hafi svikist um að borga um 15 milljónir evra. Ronaldo er sagður hafa gert samning við saksóknara og játaði þess vegna brot sín. Hluti af samningnum var að hann yrði dæmdur í 23 mánaða fangelsi, en dómar sem eru undir tveimur árum fyrir brot sem ekki varða ofbeldi eru venjulega skilorðsbundnir á Spáni. Hann mun því ekki þurfa að sitja inni. Þá þarf Ronaldo að borga tæplega 19 milljónir evra í skaðabætur.
* Tim Suton hefur verið kallaður inn í þýska landsliðshópinn í handknattleik í stað leikstjórnandans Martins Strobel sem varð fyrir meiðslum á hné í sigurleiknum gegn Króötum í fyrrakvöld. Strobel leikur ekki meira með Þjóðverjum á heimsmeistaramótinu en hann gengst undir aðgerð á hnénu á næstu dögum. Suton er 22 ára gamall og leikur með þýska liðinu Lemgo. Hann á átta leiki að baki með þýska A-landsliðinu og hefur í þeim skorað 12 mörk. Þjóðverjar, sem eru komnir í undanúrslitin, etja kappi við Spánverja í kvöld.
* Martin Hermannsson var hetja þýska liðsins Alba Berlín þegar liðið vann sigur á Rytas 87:85 í Evrópubikarnum í gær. Martin tryggði liði sínu sigurinn með því að skora úr þremur vítum á síðustu sekúndu leiksins en hann var stigahæstur með 25 stig.
* Aðalsteinn Eyjólfsson hefur framlengt samning sinn sem þjálfari þýska 1. deildar liðsins Erlangen í handknattleik og er nú samningsbundinn félaginu til loka tímabilsins 2020. Aðalsteinn tók við Erlangen í október árið 2017 og kom þangað eftir að hafa áður stýrt liði Hüttenberg, þar sem liðið vann sig upp um tvær deildir á tveimur árum undir hans stjórn. Samningur Aðalsteins átti að renna út næsta sumar en forráðamenn Erlangen eru mjög ánægðir með störf hans og framlengdu um eitt ár.
* Lionel Messi er markahæstur í spænsku 1. deildinni á leiktíðinni með 18 mörk og ekki nóg með það því hann er sá leikmaður sem hefur gefið flestar stoðsendingar eða 10 talsins. Hann hefur átt flest skot á markið eða 45, hefur skorað flest mörk utan teigs eða 5 og er sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk úr aukaspyrnum, eða 3.